Glæsilegur hópur skáta tók þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga í dag. Með þátttökunni vildi hópurinn sýna að skátar standa með mannréttindum og hinsegin fólki í réttindabaráttu þess.

gledigangan_2015_1

Yndisleg upplifun

„Þetta var ótrúlega yndisleg upplifun“ sagði Dagbjört „Dagga“ Brynjarsdóttir verkefnastjóri fræðslu- og dagskrármála Bandalags íslenskra skáta. „Ég var erlendis í fyrra þegar skátar tóku fyrst þátt en lét mig ekki vanta núna og mun pottþétt verða um borð um ókomna framtíð“.

Dagga
Dagga

Dagga sagði undirbúning hafa gengið mjög vel. „Það lögðu margir hönd á plóg við að gera aðkomu skáta að þessum degi sem glæsilegasta og það var gaman að vinna með öllu þessu frábæra fólki“ segir Dagga og bætir við að stuðningur Hjálparsveitar skáta í Reykjavík hafi verið dýrmætur. „Við hittumst í höfuðstöðvum HSSR í gær til að skreyta vagninn og gera klárt en hjálparsveitin lagði til kerru, bíl og yndislegan bílstjóra – aðkoma vina okkar í hjálparsveitinni skipti miklu máli!

„Á ferðalagi saman“

Hjördís Björnsdóttir tók að sér að leiða undirbúning skáta að þessu sinni. „Þetta var snilldin ein – við skipulögðum okkur á netinu, héldum svo einn undirbúningsfund og svo var bara kýlt á þetta“ segir Hjördís og er að vonum kát með hvernig til tókst.

Hjördís
Hjördís

„Að þessu sinni ákváðum við að hafa sérstakt þema og við unnum út frá þemanu „Á ferðalagi saman“ og vildum þannig undirstrika að við erum öll í sama báti og eigum að róa í sömu átt hvað varðar mannréttindi og virðingu fyrir hvert öðru.

Við líðum ekki mismunun

Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir á heiðurinn af því að efna til þátttöku skáta í þessu skemmtilega verkefni og leiddi undirbúning í fyrra og lagði einnig sitt af mörkum í ár. „Við skátar eigum ekki að líða mismunun af neinum toga“ segir Inga og rifjar upp ályktun Skátaþings frá því í fyrra þar sem ályktað var tæpitungulaust um afstöðu skátahreyfingarinnar.

Inga Auðbjörg frumkvöðull
Inga Auðbjörg frumkvöðull

„Ég er stolt af þessari ályktun sem var samþykkt og markar með afgerandi hætti þá stefnu okkar að virða sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi gerum við engan greinarmun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðna eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna“.

Fjölskyldan hreifst með

„Ég var með fjölskyldu minni við Hljómskálagarðinn að fylgjast með göngunni. Þegar við sáum skátavagninn fara hjá var ekki hægt annað en að skutla sér yfir grindverkið sem skildi áhorfendur og göngufólkið að og ganga með“ segir Sigurður Viktor Úlfarsson, formaður Skátakórsins með meiru. Í göngunni voru margir frábærir vagnar en mér hreinlega vöknaði um augun þegar ég sá þetta frábæra framtak minna félaga – glæsilega skreyttur búnaður frá minni góðu hjálparsveit, sterk skilaboð og syngjandi skátar sem hreinlega geisluðu af gleði voru okkur skátum til mikils sóma.

Siggi
Siggi

Ég gat hreinlega ekki staðið hjá og því vippuðum við Inga börnunum yfir grindverkið, fylgdum sjálf eftir í kjölfarið og gengum með á leiðarenda. Upplifunin varð ekki síður mögnuð þegar við gengum eftir Lækjargötu og að Arnarhóli undir lófataki og hvatningarhrópum mörg þúsund gesta sem fögnuðu okkur. Ég hef alltaf verið stoltur af skátastarfinu og þeim gildum sem það stendur fyrir en mér fannst ég ná nýjum hæðum í göngunni í dag, virk þátttaka og alvöru aðgerðir er það sem gildir“ segir Siggi að lokum.

/gp

:: Skoða myndasafn frá deginum á Facebook

 

gledigangan_2015_2