Skátar rétti hjálparhönd

Stjórn Bandalags íslenskra skáta samþykkti á fundi sínum nú í vikunni hvatningu til skáta um að leggja flóttafólki hjálparhönd. „ Tilefnið er ákall og umræður meðal skáta um það hvernig skátar geti rétt bágstöddum hjálparhönd,“ segir Bragi Björnsson skátahöfðingi og vísar í umræður á samskiptavefjum þar sem skátar vilja leggja lið.

Yfirlýsing stjórnar Bandalags íslenskra skáta hljóðar svo:

Skáti er hjálpsamur

Stjórn Bandalags íslenskra skáta harmar mjög stríðsátök í heiminum sem hafa valdið því að milljónir óbreyttra borgara hafa hrakist frá heimkynnum sínum. Hörmungar þessa fólks eru ólýsanlegar. Okkur hinum sem erum lánsamari ber skylda til að rétta þessum manneskjum hjálparhönd.

Í fyrstu grein skátalaganna segir að skáti er hjálpsamur. Í ljósi þess hvetur stjórn BÍS skáta og aðra Íslendinga til þess að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að leggja málefnum flóttamanna lið. Hér á landi er það Rauði kross Íslands sem er sá aðili sem annast hefur aðstoð við flóttafólk og því beinir stjórn BÍS því til skáta að bjóða Rauða krossinum þá liðveislu sem þeir geta veitt. Þannig telur stjórnin að kraftar skáta muni nýtast sem best í þágu flóttamanna, bæði þeirra sem hingað munu koma og þeirra er hljóta aðstoð annarsstaðar.

Líbanskir skátar leggja hér flóttamönnum frá Sýrlandi lið.

Líbanskir skátar leggja hér flóttamönnum frá Sýrlandi lið.

Ljósmyndir með frétt eru fengnar af vef alþjóðahreyfingar skáta.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar