Skátar í gleðigöngu

Íslenskir skátar ætla að taka þátt í gleðigöngu í Reykjavík á laugardag og sýna þannig mannréttindum virðingu sína. Hugmyndin var sett fram í umræðuhópi skáta á vefnum og var strax vel tekið.  Í gærmorgun kom fyrirspurn til stjórnar Bandalags íslenskra skáta hvort landssamtökin tækju þátt og var því einnig vel tekið, enda er framtakið mjög í anda samþykkta síðasta Skátaþings, en þar var ályktað mjög ákveðið að skátar vinni markvisst gegn hvers kyns mismunun.
Breskir skátar vilja enga mismunun.

Breskir skátar vilja enga mismunun.

Þeir skátar og aðrir sem vilja ganga með skátum í Gleðigöngunni á laugardag eru beðnir um að láta vita af sér á Facebook-viðburðinum „Stoltir skátar – vagn í gleðigöngu“  með því að merkja þar við þátttöku.  Fyrir skipuleggjendur er gott að vita um fjöldann og þar verða einnig settar inn hagnýtar upplýsingar.

Breskir og bandarískir skátar ganga til gleði

Í Bandaríkjunum hafa skátar í skátabúningum tekið þátt í gleðigöngum til að sýna mannréttindum samstöðu. Innan skátahreyfingarinnar í Bandaríkjunum hefur verið tekist á um málefni samkynhneigðra og hafa fréttir af því ratað í íslenska fjölmiðla m.a. undir fyrirsögninni „Samkynhneigðir ekki velkomnir í skátana“, sem engan veginn endurspeglar það rétta í heildarmyndinni.  Öflugir fjölmiðlar vestanhafs hafa gert þátttöku skáta í gleðigöngum góð skil. Sjá hér frétt í The New York Times.

Breskir skátar hafa einnig talað skýrt undir yfirskriftinni „Scout Pride“.  Þeir m.a. tekið þátt í gleðigöngum og útbúið fræðsluefni „It‘s OK to be Gay and a Scout! Advice for young people“.

Íslenskir skátar skýrmæltir um mannréttindi á Skátaþingi

Á síðasta Skátaþingi  var ályktað mjög ákveðið að skátar vinni markvisst gegn hvers kyns mismunun: „Bandalag íslenskra skáta virðir sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýliða skal virða og engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna“, segir í ályktun Skátaþings. Þetta er jafnframt í samræmi við lög alþjóðahreyfinga skáta og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en gengur í raun skrefinu lengra þar sem kynhneigð er sérstaklega bætt inn í upptalninguna í lögum BÍS. Sjá frétt frá síðasta Skátaþingi.

 

Tengt efni:

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar