Fyrir skátaþingi sem haldið verður um helgina liggja miklar grundvallarbreytingar á lögum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og ný heildarstefnumótun skáta.

Meginmarkmið skátanna er að veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.  Skátahreyfingin vill stuðla að uppeldi og menntun með lífsgildum sem byggja á skátaheitinu og skátalögunum. Leitast er við að skapa betri heim þar sem hver einstaklingur hefur tilgang og gegnir mikilvægu hlutverki til uppbyggingar samfélagsins.

Stefnt að fjölgun starfandi skáta með markvissum hætti

Umræður á skátaþingi
Umræður á skátaþingi

Stefna á að fjölgun starfandi skáta þannig að árið 2020 verði yfir 5000 skátar starfandi í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins.  Í stefnuskjali fyrir skátaþing eru markmiðin sett fram í sex flokkum en þeir eru:

  • Þátttaka ungmenna. Skátastarf á að veita ungu fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína og efla þekkingu sem gagnast við virka þátttöku í hreyfingunni, sem og í samfélaginu í heild.
  • Uppeldis og menntunaraðferðir. Starfsgrunnur skáta skapar aðstæður fyrir óformlegt menntakerfi þar sem Skátaaðferðinni er beitt við að efla getu ungs fólks til að takast á við verkefni framtíðarinnar.
  • Fjölbreytni og samþætting. Skátar ætla að endurspegla margbreytileika samfélagsins og bjóða með virkum hætti öllum að taka þátt. Fjölbreytileikinn á ekki eingöngu að birtast í þátttökunni heldur einnig verkefnum sem skátarnir taka sér fyrir hendur.
  • Samfélagsleg þátttaka. Allir skátar ættu að taka virkan þátt í starfi samfélagsins og deila þeirri reynslu sinni öðrum til hvatningar þannig að fleiri taki þátt í ákvörðunartöku í samfélaginu, nýti sér kosningarétt og stuðli að virku lýðræði. Með virkni og verkefnum leiða skátar til jákvæðra breytinga.
  • Miðlun og samskipti. Skátar eiga að sýna hvað þeir gera og hvers vegna með vísan í gildi sín. Þeir miðla upplýsingum með virkri samskiptatækni og velja sér samstarfsaðila í takt við markmið sín.
  • Opnari stjórnsýsla. Stjórnskipun skátahreyfingarinnar á að vera gagnsæ, ábyrg, skilvirk og í samræmi við grunngildi BÍS með áherslu á að þjóna markmiðum og framtíðarsýn skátahreyfingarinnar. Gott samstarf er á milli skátafélaga, stjórnar BÍS og skátamiðstöðvarinnar.
Þingfulltrúar á skátaþingi fyrir ári síðan
Þingfulltrúar á skátaþingi fyrir ári síðan

Virk þátttaka á skátaþingi

Skátaþing er opið öllum skátum og má gera ráð fyrir að hátt í 200 skátar heimsæki þingið og taki þátt í dagskrá að hluta eða allan tímann. Allir starfandi skátar hafa málfrelsi og tillögurétti á Skátaþingi.

Boðsgestir á skátaþingi fyrir ári síðan
Boðsgestir við upphaf skátaþings fyrir ári síðan

Þingið verður sett á föstudagskvöld kl. 18.30 og við taka hefðbundin aðalfundarstörf og takmarkast þá atkvæðisréttur við fjóra fulltrúa hvers skátafélags.  Dagskráin yfir helgina, einkum á laugardag, er þannig sett upp að flestir þátttakendur geti verið virkir í umræðu og flest sjónarmið komi fram. Umræðuefni þá verða einkum lagabreytingar og stefnumótun skáta til 2020, en einnig verða eftirfarandi málefni tekin fyrir: Skátaheit, Landsmót skáta, World Scout Moot 2017, rekkaskátadagskrá, róverdagskrá, þjónusta BÍS, leiðtogaþjálfun, skátamál.is, Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og félagsráð.

Á laugardagskvöld munu skátar gera sér dagamun með kvöldverði og kvöldskemmtun,  en hefja svo þingstörf að nýju í bítið á sunnudag og verða þá lagabreytingar og tillögur um stefnumótun til lykta leidd. Stefnt er að þinglokum kl. 14:30 á sunnudag.

Skátaþing 2015 er haldið á Selfossi og er skátafélagið Fossbúar gestgjafi þingsins að þessu sinni og sjá fulltrúar félagsins og starfsmenn Skátamiðstöðvar um undirbúning þingsins.

Tengt efni:

Stefnumótun Skátastarfs – tillögur fyrir skátaþing

Tengdar fréttir: