Skátaflokkar, skátafélög og einstaka skátar nota sumarið vel til ferðalaga. Ferðaflóran er fjölbreytt, allt frá styttri útilegum til lengri ferða, innanlands sem erlendis. Stærsti hópurinn er 80 manns, en í mörgum eru nokkrir tugir. Einnig nota einstaklingar sumarið til dvalar á skátamiðstöðvum allt frá Úlfljótsvatni til Kandersteg. Við erum að sjálfsögðu búin að óska eftir ferðasögum frá þessum hópum.
Bonzai súrringar. Hluti hópsins sem er á leið til Japan
Bonzai súrringar. Hluti hópsins sem er á leið til Japan

Lengsta skátaferðin í sumar er eftir þvi sem við best vitum til Japan, en þangað fara 80 skátar á Heimsmót skáta. Undirbúningur hefur staðið vel á annað ár. Friður og umhverfisvernd eru stef í dagskrá sem 30 þúsund skátar frá um 150 löndum taka þátt í dagana 28. júlí til 8. ágúst. Við sögðum nýlega frá undirbúningi hópsins: Æfingahelgi hjá heimsmótsförum

Gleðimót á Englandi

Aðrir skátahópar rækta tengsl sem hafa byggst upp í tengslum við fyrri heimsmót og komur erlendra skáta á landsmót hérlendis. Íslenskur hópur úr nokkrum skátafélögum fer í lok þessa mánaðar á „Run to the fun“ skátamótið sem haldið er í Devon héraði á Englandi 25. júlí – 1. ágúst. Í hópnum eru 26 skátar úr Vífli, Svönum, Fossbúum og Skátafélagi Borgarness. Flestir þeirra eru á rekkaskátaaldri, 16 – 18 ára. Við sögðum frá þessari ferð nýlega undir yfirskriftinni Gleðisprettur á skátamót á Englandi.

Ferðafélagi
Ferðafélagi

Ævintýraferð á Strandir

Dróttskátar í Ægisbúum eru þessa dagana í fimm daga ferð um Strandir og ekki í fyrsta sinn sem slík ferð er farin. Hópurinn er vel undirbúinn, en í vetur var vel farið yfir búnað, hvernig áttavitinn virkar og annað sem skiptir máli. Þetta kom fram í Skátablaðinu nýlega en þar á bls. 12 – 13 var viðtal við dróttskáta sem eru með í ferðinni. Skoða Skátablaðið

Danir sóttir heim til Þýskalands

Á fimmtudag leggja 16 skátar frá Stíganda í Búðardal af stað á danskt skátamót í Þýskalandi, eins ótrúlega og það kann að hljóma, en Danskir skátar í Suður-Slésvík halda mótið dagana 18. – 25. júlí. Þetta er í þriðja sinn sem hópur frá Íslandi sækir mótið, en árið 2007 fór hópur frá Akranesi, árið 2011 fór hópur frá Stíganda eins og nú. Í hópnum frá Stíganda að þessu sinni eru 13 dróttskátar, 3 fálkaskátar og 4 fararstjórar. Nánar um mótið: Tydal Jamborette

24 Non-Stop

Þá fór um nýliðna helgi 11 manna hópur frá skátafélaginu Stróki og 14 manna hópur á vegum skátafélagsins Arnarins til London til að taka þátt í Gilwell 24 í Gilwell Park. Ferðafélagar í Stróki eru búin að lofa skemmtilegri frásögn þegar þau koma heim og hafa jafnað sig. Þeir sem vilja fá að vita meira strax um hvernig þessi „non-stop action!“ virkar geta farið inn á vefsíðuna gilwell24.info ,

Tjaldbúðir á Úlfljótsvatni. Þar er nóg pláss fyrir alla.
Tjaldbúðir á Úlfljótsvatni. Þar er nóg pláss fyrir alla.

Skátamiðstöðvar allan ársins hring

Margir einstaklingar og minnihópar hafa síðan dvalið um lengri eða skemmri tíma á skátamiðstöðvum. Við fáum frásögn með haustinu af dvöl á Kandersteg skátamiðstöðinni, en þar hafa margir skátar notið góðra stunda.

Mikið líf og fjör er á skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatni, sem er öllum opin og þar njóta margir dvalar á einu besta og fjölskylduvænasta tjaldsvæði landsins. Þar er margs að njóta eins og töldum upp í frétt nýlega Margs að njóta á Úlfljótsvatni

Og svo allt það sem vantar inn í þessa frétt

Við erum örugglega að gleyma einhverjum ferðum. Endilega sendu fréttir og ferðasögur á netfangið skatafrettir@gmail.com

Ekki gleyma „tilfinningaskyldunni“

Þá er rétt að minna á að hópar sem fara í ferðir á erlend skátamót eiga að senda inn upplýsingar til Skátamiðstöðvarinnar um hverjir eru að fara, á hvaða skátamót, miðstöð eða annað er verið að heimsækja. Tilgreina fjölda ferðadaga og tengliði (símar, netföng og aðrar gagnlegar upplýsingar). Ef þú hefur á tilfinningunni að þú stjórnir einhverjum hópi sem þetta á við þá skalt endilega senda upplýsingar á skatar@skatar.is og tölfræðin verður hamingjusöm til æviloka.

Tilkynningarskylda fararstjóra er eðlileg og sjálfsögð varúðarráðstöfun. Með því að halda Skátamiðstöðinni upplýstri auðveldum við starfsmönnum hennar að bregðast hratt við ef eitthvað gerist í ferðinni eða á því svæði sem skátar eru á ferð.  Einnig snýst þetta um upplýsingagjöf til annarra skátabandalaga.  „Við fáum reglulega tilkynningar um erlenda hópa sem heimsækja ísland og viljum einnig upplýsa önnur skátabandalög,“ segir Jón Ingvar Bragason sem býr að reynslu í viðburðastjórn og alþjóðasamskiptum skáta til margra ára.