Skátakórinn í jólafíling á laugardag

Næsti laugardagur verður viðburðaríkur hjá Skátakórnum en þá mun kórinn syngja jólalög á tveimur hátíðum í Hafnarfirði, annars vegar á „Syngjandi jólum í Hafnarborg“ og hins vegar á eigin jólaballi í Hraunbyrgi.
Prúðbúin á jólaballi hjá Skátakórnum

Prúðbúin á jólaballi hjá Skátakórnum

„Þetta er rétti staðurinn til að komast í jólafíling í upphafi desembermánaðar“, segir Sigurður Viktor Úlfarsson formaður kórsins. „Í fyrra skapaðist frábær stemning á báðum stöðum og við hlökkum mikið til.  Við syngjum fjölbreytta blöndu jólalaga úr smiðju Baggalúts, Helgu Möller og víðar.“

Á kórahátíðinni „Syngjandi jólum“ sem er í menningarmiðstöðinni Hafnarborg kemur mikill fjöldi kóra í Hafnarfirði fram og þar slær Skátakórinn í klukkan 13.40. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Klukkan fjögur hefst svo árvisst Jólaball Skátakórsins  í Hraunbyrgi, skátaheimili Hraunbúa. „Í fyrra var fullt út úr dyrum og mikil stemning – enda með besta jólaballi í bænum.“ segir Sigurður Kórinn syngur fjölbreytt jólalög í um það bil hálftíma og þar á eftir halda kórmeðlimir uppi fjörinu á jólaballi Skátakórsins.  Þar verður dansað í kringum jólatréð og hver veit nema bræðurnir úr fjöllunum eigi leið hjá.  Aðgangseyrir er 500 krónur á mann, bæði börn og fullorðna, og er innifalið í því veitingar fyrir alla sem og glaðningur fyrir börnin.  Sigurður segir að allir séu hjartanlega velkomnir.

Kórstjóri Skátakórsins er hinn landskunni Guðlaugur Viktorsson sem tók við kórnum síðastliðið haust.

 

 Tengd frétt:   Nýr kórstjóri og nýir félagar í Skátakórnum

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar