Í tilefni af 20 ára afmæli Skátakórsins verður blásið til skátaskemmtunar í Víðistaðakirkju, laugardaginn 5. maí kl. 16:00.

Kórinn mun flytja fjölbreytta tónlist undir stjórn Öldu Ingibergsdóttur á milli þess að kynnir samkomunnar mun rifja upp sögu kórsins í dúr og moll. Undirleikari á píanó er Marton Wirth.

Gestum verður boðið upp á léttar veitingar og frumsýnd verður muna- og myndasýning þar sem brugðið verður upp svipmyndum frá tuttugu ára fræknum ferli þessa fjörmikla skátahóps.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 en frítt er inn fyrir fyrrum stjórnendur kórsins, eldri kórfélaga og börn og ungmenni 20 ára og yngri.

Skátakórinn varð til þegar skátahópar úr Hafnarfirði og Reykjavík lögðu saman eftir að hafa verið með skipulagt söngstarf hvor í sínu lagi um nokkurra ára skeið. Kveikjan var einfaldlega sú að koma saman í góðra vina hópi, syngja, spjalla og halda tengslum við góða vini og um leið að kynnast nýju fólki.

Á þessum bernskuárum sem nú eru senn liðin hefur Skátakórinn verið fastur punktur í hátíðarhöldum skáta um land allt, komið fram á mótum og mannfögnuðum og lagt sitt af mörkum til að glæða geð þeirra sem á hafa hlýtt.

Skátakórinn hefur lagt metnað sinn í að varðveita skátamúsík með því að kosta útsetningar, upptökur og útgáfu á geisladiskum með skátalögum sem skipa nú dýrmætan sess sem verðmætar heimildir um lagahefð og söngmenningu skáta.

Skátakórinn hefur haldið fjölda tónleika innanlands og erlendis og hafa oft komist fleiri að en vilja.

Fyrst og fremst hefur þó starf kórsins haft það að markmiði að veita þeim sem taka þátt gleði og ánægju og þau gildi verða áfram í fyrirrúmi á næstu tuttugu árum í starfi kórsins.

Kórinn hefur stutt og notið stuðnings Skátafélagsins Hraunbúa um árabil og æfir í Hraunbyrgi, vikulega hvert þriðjudagskvöld yfir vetrartímann og þangað eru allir velkomnir.

Hér má svo sjá skemmtilegt myndband í tilefni afmælisins.