Skátaíþróttin FOLF

„Fyrstu tveir folfvellirnir voru settir upp af skátum á skátasvæðum. Fyrsti völlurinn var settur upp til bráðabirgða á Landsmóti skáta sem haldið var á Hörmum við Akureyri árið 2002. Um haustið var svo settur upp völlur á Úlfljótsvatni og þar var smíðað úr síldartunnum,“ segir Birgir Ómarsson, forfallinn folfari um fyrstu ár folfsins á Íslandi.

Folf er stytting á heitinu frisbígolf. Leiknum svipar til golfs nema notaður er frisbídiskur í stað golfkúlu og markmiðið er að kasta disknum í tilteknar körfur í sem fæstum köstum. Birgir kynntist frisbígolfinu í Bandaríkjunum þegar hann stundaði þar nám.

Fyrstu folfararnir. Eilítið úr fókus ólíkt minningum um afreksverkin.

Fyrstu folfararnir. Eilítið úr fókus ólíkt minningum um afreksverkin.

Gott sport fyrir ömmur og skáta

„Það er einkum tvennt sem gerir þessa íþrótt svo skemmtilega,“ segir Birgir. „Annars vegar getur fólk á öllum aldri stundað hana. Þú getur bæði spilað leikinn með barninu þínu og ömmu þinni á sama tíma. Hins vegar er lítill stofnkostnaður en leikmenn geta í raun notast við einn frisbídisk þótt þeir sem eru lengra komnir noti nokkrar ólíkar gerðir. Þetta er ótrúlega skemmtilegt sport.“

Fyrstu körfurnar voru heimasmíðaðar

Fyrstu körfurnar voru heimasmíðaðar

Fyrstu folf-spilararnir á Íslandi voru skátar og voru þeir virkir í að byggja upp aðstöðuna bæði á Hömrum og á Úlfljótsvatni. Þar eru níu körfu vellir. Betri búnaður hefur leyst gömlu síldartunnurnar af hólmi. „Þær voru nú eiginlega ónothæfar,“ segir Biggi um hönnunina. „Þetta var gert meira af vilja en getu.“

Uppáhaldsvöllurinn er á Akureyri

„Minn uppáhaldsvöllur er Akureyri,“ segir Biggi. „Hann er krefjandi í skemmtilegu landslagi en bæði þarf að kasta yfir gil og tjörn.“ Það eru fleiri en Biggi þessarar skoðunar því hann hitti mann um daginn sem brunaði yfir páskana norður yfir heiðar eingöngu til að spila folf. Sá er reyndar mjög góður og stefnir á mót erlendis í sumar. Biggi saknar þess að fleiri skátar stundi íþróttina af alvöru.

Birgir er formaður Íslenska frisbígolfsambandsins og hefur unnið íþróttinni brautargengi undanfarin ár, fylginn sér að skáta sið. Fljótlega eftir að fyrsti fullgildi frisbígolfvöllur landsins var tekinn í notkun við Úlfljótsvatn haustið 2002 komst skriður á málin í Reykjavík og opnaður var völlur í Gufunesi og árið 2011 á Klambratúni. Áhuginn jókst mikið með tilkomu vallarins á Klamratúni og telur Birgir að um 1.000 manns stundi nú íþróttina að staðaldri. Í sumar er líklegt að þrír nýir vellir opnaðir í Reykjavík, einn við hlið Grasagarðsins í Laugardal, annar ofarlega í Elliðaárdal og sá þriðji í Fossvogsdal.

Undanfarin ár hefur sambandið skipulagt Íslandsmót auk þess sem fjölmörg mót eru haldin hvert sumar. Fyrsta mótið var um páskana. Allar nánari upplýsingar um mótið og frisbígolf má finna á vefsíðunni folf.is.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar