Fjármálaábyrgð sveitarforingjans

Fjármál skátasveitarinnar eru oft í höndum sveitarforingjanna. Það er þó mjög misjafnt milli skátafélaga hversu mikla ábyrgð sveitarforingjar bera á fjármálum.

Í flestum skátafélögum ber starfsmaður eða gjaldkeri ábyrgð á innheimtu árgjalda og annarra gjalda sem skátunum ber að greiða. Sveitarforinginn ætti hins vegar ætíð að fylgja því eftir að allir borgi árgjöld félagsins við upphaf starfsársins, þannig veit hann nákvæmlega hverjir eru skráðir í sveitina hans og hann hefur um leið nauðsynlegar eða mikilvægar upplýsingar um fjölskyldu skátans.

Einstaka skátafélög tryggja sveitunum ákveðið rekstrarfé, þannig er hluti af árgjaldi hvers skáta er ætlaður til þess að greiða kostnað sem fellur til vegna sveitar- eða flokksstarfs. Sveitarforinginn ber þá ábyrgð á bókhaldi sveitarinnar.

Sérstaka aðgæslu þarf að sýna við innheimtu þátttökugjalda. Þegar skáti greiðir fyrir þátttöku í útilegu á hann að fá kvittun. Sveitarforingi notar sitt afrit af kvittuninni sem fylgiskjal fyrir bókhald útilegunnar. Það er mikilvægt að sveitarforinginn greiði alla reikninga sem fyrst og greiði til dæmis skálagjöld í upphafi eða strax að útilegu lokinni.

Það er einnig hlutverk sveitarforingjans að stýra efnisútvegun fyrir sveitina og aðstoða flokkana í því efni. Til þessa þarf oft mikla útsjónarsemi. Sveitarforinginn hvetur einnig til fjáraflana fyrir skátasveitina þegar mikið stendur til. Skátarnir hafa gott af þátttöku í fjáröflunum því þá skynja þeir betur að það þarf að hafa fyrir því að afla fjár fyrir starfið. Tryggustu bandamenn sveitarforingjans í fjáröflunum eru foreldrarnir. Það hefur gefist vel að fá foreldra til að annast skipulag og framkvæmd fjáraflana.

Það er slæmur siður að rukka inn fundargjöld. Þá er nær að hækka árgjaldið lítillega og hafa stærstan hluta kostnaðar vegna starfa í sveit og flokk innifalið í því.