Ábyrgð sveitarforingja

Sveitaforingjarnir bera ábyrgð á sveitarstarfinu gagnvart fjölmörgum aðilum:

Skátunum sjálfum, flokkunum, sveitarráðinu, sveitinni, foreldrum, félagsstjórn og  BÍS. Þá kemur sveitarforinginn fram í nafni sveitarinnar við ýmis tækifæri, til dæmis:

 • gagnvart félagsstjórn
 • gagnvart foreldrum
 • gagnvart mótsstjórnum á skátamótum, þar sem sveitin ein og sér er þátttakandi
 • gagnvart ýmsum aðilum sem sveitin þarf að leita til.

Ábyrgð gagnvart skátunum

Ábyrgð skátaforingja gagnvart hverjum skáta

Sveitarforingjarnir eru mikilvægar fyrirmyndir allra skáta í sveitinni og því verða þeir að vera meðvitaður um að allt sem þeir segja og gera skiptir máli. Enginn býst við fullkomnum foringja – aðeins áreiðanlegum. Því er mikilvægt að sveitarforingjarnir standi við orð sín og séu til fyrirmyndar, til dæmis hvað varðar stundvísi og bindindi á áfengi og tóbak í skátastarfi með börnum. Sveitarforingjar hreykja sér ekki af „helgargleði“ í eyru skátanna. Orð og athafnir eiga að haldast í hendur. Sveitarforingjar hvetja og styðja skátana í starfi sínu. Sveitarforingjarnir aðstoða skátana við að meta verkefni sín og eru ábyrgir fyrir því að hvatakerfið þjóni tilgangi sínum.

Ábyrgð sveitarforingja gagnvart skátaflokkunum

Sveitarforingjarnir styðja við starfið í flokkunum með því að:

 • Vera viðbúnir því að aðstoða flokka við val á flokksforingja og aðstoðarflokksforingja.
 • Styðja flokksforingjana við áætlanagerð hvers dagkrárhrings, undirbúning og framkvæmd flokksstarfsins.
 • Staðfesta val flokka á flokksverkefnum.
 • Úthluta skátaflokkunum viðeigandi þjónustuverkefnum til þess að tryggja jafnvægi í verkefnum skátanna.
 • Gefa skátaflokkum ráð um efnisútvegun og fjármögnun verkefna.
 • Fylgjast með og gefa hugmyndir að verkefnum.
 • Gæta þess að skátarnir ráði við verkefnin sem þeir vinna að, að þau samræmist dagskráráherslu hvers dagskrárhrings og séu ekki of einhæf.
 • Fylgjast með því að enginn verði útundan í flokkastarfinu.
 • Stundum getur þurft að grípa til þess ráðs að allir flokkarnir vinni að sama verkefninu um tíma meðan skátarnir eru að ná tökum á vinnubrögðunum.
Ábyrgð sveitarforingja gagnvart sveitarráðinu

Eitt mikilvægasta verkefni sveitarforingja er að móta og þjálfa sveitarráðið. Sveitarforingjarnir eru lærimeistarar sveitarráðsins og stýra þeim verkefnum sem þar eru á dagskrá. Þeir þurfa að vera meðvitaði um hve mikilvægur vettvangur uppeldisstarfs og leiðtogaþjálfunar sveitarráðið er.

Sveitarforingjarnir hrinda verkefnum af stað, leiðbeina og gefa góð ráð um aðferðir og vinnubrögð. Sveitarforingjarnir þekkja oft af eigin reynslu starfsvettvang flokkanna og þau viðfangsefni sem hver skátaflokkur þarf að fást við. Það auðveldar þeim að miðla öðrum af reynslu sinni.

Ef einhverjum verða á mistök í skátastarfi sínu, sérstaklega ef um flokksforingja er að ræða, þá er það sveitarforingjanna og sveitarráðsins að hjálpa honum að finna hæfileg verkefni og halda áfram. Til þess að geta leyst verkstjórn sína vel af hendi verða sveitarforingjarnir að leggja traust sitt á sveitarráðið og gera þeim sem í því eru fært að leysa verkefni sín. Fátt er mikilvægara en gagnkvæmur skilningur, hjálpsemi og vinátta í sveitarráðinu.

Ábyrgð sveitarforingjans gagnvart sveitinni

Það má aldrei gleymast að sveitarforingjarnir bera ábyrgð á öllum störfum skátasveitarinnar og alls þess sem fer fram í skátaflokkunum. Flokksforingjar og aðstoðarsveitarforingjar eru verkefna- og verkstjórar en raunveruleg ábyrgð hvílir á herðum sveitarforingjanna.

Sveitarforingjarnir bera meðal annars ábyrgð á:

 • Að sveitin vinni að markvissu skátastarfi samkvæmt Skátaaðferðinni.
 • Öllu útilífi flokkanna og sveitarinnar.
 • Að tekið sé á þeim vandamálum sem koma upp innan flokkanna og sveitarinnar og að þau séu leyst á farsælan hátt.
 • Að sveitin hafi tiltækt allt nauðsynlegt efni fyrir verkefni sín.

Ábyrgð gagnvart foreldrum

Sveitarforingi ber ábyrgð á starfinu í skátasveitinni og skátaflokkunum gagnvart foreldrum og  samfélaginu öllu. Hann verður að sjá til þess að foreldrar hafi tækifæri til þess að kynnast markmiðum og leiðum í skátastarfi og því sem er efst á baugi í starfinu hverju sinni.

Starf skátasveitarinnar verður ætíð að vera í samræmi við landslög og reglugerðir.

Í þessu ljósi eru til dæmis viðbrögð sveitarforingja er slys ber að höndum afar mikilvæg. Margvíslegan fróðleik um viðbragðsáætlanir er að finna hér.

Ábyrgð gagnvart félagsstjórn

Sveitarforingjarnir hafa víðar störfum að sinna en í skátasveitinni og sveitarráðinu. Sveitarforinginn er æðsti stjórnandi skátasveitarinnar og hann á sæti í foringjaráði félagsins. Starfsáætlanir skátasveitarinnar ættu alltaf að taka mið af áætlun félagsins.

Í foringjaráði félagsins geta sveitarforingjarnir haft áhrif á:

 • Stjórn félagsins.
 • Fjármál félagsins.
 • Starfsáætlanir félagsins.
 • Starfshætti félagsins.

Sveitarforingi leggur til málanna á foringjaráðsfundi og kemur þannig skilaboðum til stjórnar. Sveitarforingjar og flokksforingjar skiptast á upplýsingum og skoðunum á sveitarráðsfundum og sama gildir um flokk og flokksforingja á flokksfundum. Þessar boðleiðir verða til þess að allir skátar í sveitinni geta haft áhrif á starf sveitarinnar og um leið félagsins.

Í samstarfi sínu við félagsstjórn og foringjaráð þarf sveitarforingi að tryggja gott upplýsingastreymi og haga starfi skátasveitarinnar í samræmi við áætlanir og lög félagsins. Ef alvarleg mál koma upp, til dæmis samskiptaörðugleikar við foreldra, slys á skátum eða atburðir sem gætu orkað tvímælis, á sveitarforingi hiklaust að hafa samband við félagsforingja og upplýsa hann um málavexti.

Ábyrgð gagnvart BÍS

Ákvarðanir Skátaþings og stjórnar BÍS hafa áhrif á allt skátastarf og þar með áætlanir og áherslur í starfi skátasveita. Sveitarforingjar þurfa að leitast við að hafa góða yfirsýn yfir það sem fram fer í hreyfingunni og miðla því, eftir því sem við á, til skátanna í skátasveitinni sinni. Skátavefurinn (www.skatamal.is) er góður vettvangur til þess að fylgjast náið með því sem er að gerast á hverjum tíma, hvort sem um er að ræða ný og spennandi verkefni, námskeið, útilegur eða skátamót

Mikilvægt er að sveitarforingjarnir þekki vel til þeirra verkefna og handbóka og sem í boði eru á hverjum tíma. Þá þarf hann að þekkja þær reglur sem í gildi eru um skátastarf, skátabúninginn og hvatakerfið. Sveitarforinginn ber ábyrgð á því að skátasveitin fylgi þeim starfsgrunni sem BÍS ákveður hverju sinni. Þetta gerir sveitarforinginn best með því að sækja námskeið, fylgjast með Skátavefnum og lesa þau gögn sem berast frá BÍS.

Stjórn BÍS hefur sett reglugerð um hæfi skátaforingja og má sjá hana hér.