Sveitarforinginn

Starf sveitarforingjans er margþætt og gefandi, meginhlutverk þeirra og það mikilvægasta er uppeldishlutverkið, en það verður ekki skilið frá öðrum hlutverkum. Auk þess að vera uppalendur og leiðbeinendur þurfa skátaforingjar að byggja upp sveitarstarfið, standa vörð um markmið skátahreyfingarinnar, stjórna framtíðarsýn sveitarinnar, hvetja og aðstoða skátana til að standa við ákvarðanir sínar og skuldbindingar.

Sveitarforinginn ber jafnframt ábyrgð gagnvart skátafélaginu, sveitinni, skátunum, foreldrum, BÍS og ýmsum öðrum aðilum, svo sem mótsstjórum og skálavörðum.

Foringjaflokkurinn

Sveitarforingjar skátasveitarinnar mynda foringjaflokk hennar. Foringjaflokkurinn metur starf sveitarinnar, framfarir skátanna og veitir uppeldisfræðilega leiðsögn og stuðning.

Æskilegt er að foringjaflokkur sveitarinnar samanstandi af einum sveitarforingja fyrir hvern skátaflokk eða hverja 8-10 skáta í sveitinni. Fjögurra flokka sveit þarf því fjóra fullorðna foringja, einn sveitarforingja og þrjá aðstoðarsveitarforingja. Foringjaflokkurinn hittist að jafnaði viku- til hálfsmánaðarlega og er stjórnað af sveitarforingjanum.

Það er mikilvægt að starfið í foringjaflokknum sé skemmtilegt og gefandi. Félagslegri þörf sveitarforingjanna innan jafningjahóps þarf að sinna til þess að sveitarforingjastarfið verði áhugavert. Foringjastörfin með skátunum verða þá ánægjulegur afrakstur vandaðrar undirbúningsvinnu – nokkurskonar uppskeruhátíðir.

Sveitarforingjarnir skipta á milli sín verkum eftir persónuleika, reynslu, þekkingu og aðstæðum hvers og eins.

Sveitarráðið

Sveitarráðið skipuleggur starfið og stýrir þjálfun, það er samsett af flokksforingjum allra flokka, aðstoðarflokksforingjum og foringjaflokk sveitarinnar. Sveitarráðið fundar að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Því er stjórnað af sveitarforingjanum þó að aðstoðarsveitarforingjarnir geti skipst á að stjórna fundum þess að hluta eða öllu leyti og fái þannig tækifæri til þjálfunar í hlutverki stjórnandans.

Sveitarráðið hefur tvíþætt hlutverk: Annars vegar að stjórna og hins vegar að sjá um þjálfun fyrir flokksforingja og aðstoðarflokksforingja. Með aðild fulltrúa sinna í ráðinu taka allir flokkarnir þátt í ákvarðanatöku um sameiginleg verkefni. Til þess að þetta fyrirkomulag skili árangri þurfa skátarnir í flokkunum að vita fyrirfram um þau viðfangsefni sem taka á fyrir á sveitarráðsfundi svo þeir geti látið skoðanir sínar og flokksins síns í ljós. Allir skátarnir í sveitinni sýna einhug um þá ákvörðun sem tekin er hver svo sem þeirra persónulega skoðun kann að vera.

Sveitarráðið stýrir samhæfingu viðburða og verkefna sveitarinnar og hefur því góða yfirsýn yfir samskipti og samvinnu flokkanna.

Skipulagsverkefni sveitarráðsins felast í því:

 • Að undirbúa greiningu á stöðu sveitarinnar. Að setja dagskráráherslur fyrir hvern dagskrárhring og sjá um forval verkefnatillagna fyrir sveitina.
 • Að setja verkefnin sem sveitarþingið hefur valið fyrir sveitina inn í sveitaráætlunina og hjálpa til við að skipuleggja þau og undirbúa.
 • Að meta verkefnin sem unnin eru í hverjum dagskrárhring og skapa forsendur til að leggja mat á persónulegar framfarir skátanna.
 • Að finna aðferð og tíma til afhendingar viðurkenninga og merkja sem skátarnir fá samkvæmt tillögum umsjónarforingjanna.
 • Að finna og fylgja eftir lausnum á því hvernig best er að fjármagna dagskrá sveitarinnar.
 • Að styðja flokkana í starfi þeirra og við inntöku nýliða og kosningu flokksforingja og aðstoðarflokksforingja.
 • Að undirbúa og standa fyrir aðgerðum til að fá nýja flokka í sveitina þegar þess gerist þörf.
 • Að ákveða, í samvinnu við félagsstjórn, foringjaráð félagsins, sveitarþingið eða aðra hópa eftir því sem við á, hvort sveitin og/eða flokkarnir ættu að vera blandaðir eða kynjaskiptir – án fordóma eins og útskýrt var í 3. kafla.

Þjálfun í sveitarráðinu og innan sveitarinnar felst í:

 • Að sýna fordæmi í að starfa eftir skátaheitinu og skátalögunum.
 • Að þjálfa flokksforingja og aðstoðarflokksforingja svo þeir séu færir um að sinna skyldum sínum. Það er nauðsynlegt svo flokkakerfið virki almennilega. Það ætti að hafa í huga að sveitarforingjarnir virka eins og óbeinir leiðbeinendur, næstum alltaf í gegnum flokksforingja og aðstoðarflokksforingja.
 • Að sjá fyrir sérstakri þjálfun, aðstoð og ítarefni. Einnig um ákveðin verkefni með aðstoð foringjanna í sveitarráðinu eða þriðja aðila.
 • Að útvega sérkunnáttu-leiðbeinendur fyrir sérkunnáttuverkefni sem einstakir skátar velja sér að vinna að og veita leiðbeinendunum upplýsingar og leiðbeiningar um hlutverk sitt.
 • Að taka á móti nýliðum og skipuleggja nýliðatímabil fyrir þá.
 • Að ákveða viðurkenningar eða leiðréttandi viðbrögð við hegðun skátanna þegar það er nauðsynlegt eða viðeigandi.

Sveitarþingið

Sveitarþingið setur grunnreglur og ákveður markmið og verkefni sveitarinnar. Allir skátar sveitarinnar taka þátt í sveitarþinginu. Hver skáti tekur þátt í þinginu sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi flokks síns. Sveitarþingið fundar að minnsta kosti tvisvar í hverjum dagskrárhring eða oftar ef aðstæður koma upp sem þarfnast þingfundar. Þingfundum er stjórnað af skáta sem kosinn er til verksins við upphaf þingfundar. Sveitarforingjar taka þátt í sveitarþingum þó að þeir hafi ekki kosningarétt.

Sveitarþingið setur reglur um starf sveitarinnar. Þar sem að reglurnar snerta alla skátana fá þeir allir að segja álit sitt á þeim og taka þátt í ákvarðanatökunni. Þingið hefur líka hlutverki að gegna þegar kemur að öðrum málefnum sem snerta alla sveitina:

 • Það tekur ákvörðun um árleg markmið sveitarinnar eins og þau koma fram í áætlun sveitarinnar. Með öðrum orðum, það skapar framtíðarsýnina.
 • Það ákveður sameiginleg verkefni sem framkvæma á í hverjum dagskrárhring og samþykkir sveitaráætlunina þegar hún hefur verið sett upp af sveitarráðinu.