Skátaflokkurinn

form_2jadalka_skataflokkurinn

Flokkakerfið er sá vettvangur þar sem skátarnir þroskast og læra að vinna saman. Vináttubönd myndast og hópurinn þróast. Skátarnir velja sér sjálfir flokk og ákjósanleg stærð hvers flokks er 5-8 skátar. Gæta þarf þess að flokkarnir fái nægt svigrúm í skátastarfinu og frelsi og sjálfstæði sem hæfir aldri skátanna. [quote_right]Í skátastarfi er lögð áhersla á að treysta skátunum og efla sjálfstraust þeirra með sjálfsnámi. Traustið er innsiglað með því að nota flokkakerfið og veita flokkunum svigrúm til að þróast á eigin spýtur og eflast í starfi sínu.[/quote_right]

Frjálst val hvers skáta

Skátarnir geta valið skátaflokk með samþykki hinna skátanna í flokknum. Ungt fólk vill helst umgangast þá sem það kann vel við og líður vel nálægt, til dæmis vini sem hafa svipuð áhugamál og allir ættu að vera í flokki þar sem þeim finnst þeir velkomnir og geta starfað óþvingað. Þetta þýðir líka að skátarnir skipta kannski um skátaflokk ef báðir flokkar eru samþykkir tilfærslunni. Skátaflokkar eru með öðrum orðum ekki alltaf fastskorðaðar eða formlegar einingar og skátaflokkar í hverri sveit eru iðulega misstórir og misöflugir.

Sumir sveitarforingjar hafa ef til vill tilhneigingu til að reyna að jafna út flokkana og gera þá eins líka hver öðrum og hægt er. Slíkt stangast á við flokkakerfið. Það skiptir mestu máli að skátaflokkarnir séu raunverulegir vinahópar en ekki að skátasveitin líti út fyrir að vera „í jafnvægi“ eða sé skipt niður í jafnstóra og einsleita hópa. Við þurfum að læra að líta á skátasveitina sem bandalag ólíkra en innbyrðis tengdra skátaflokka.

Jafningjahópur – árangursríkur lærdómsvettvangur

Það væri misráðið af sveitarforingjum að endurskipuleggja og stokka upp skátaflokka að eigin frumkvæði. Slíkar aðgerðir hafa orðið til þess að eyðileggja flokkakerfið, af því að þær uppræta eiginleika jafningjahópsins og – það sem verra er með tilliti til markmiða skátahreyfingarinnar – hamla því að hann verði árangursríkur lærdómsvettvangur.

Samsetning skátaflokksins

Flokkar eru ýmist kynjaskiptir eða blandaðir og eins geta skátarnir í hverjum flokki verið jafnaldrar eða úr nokkrum árgöngum. Hvort sem flokkar eru kynjaskiptir eða blandaðir má ekki láta það trufla eðlilega virkni jafningjahópsins, hafa áhrif á innri samstöðu eða bitna á hópnum sem lærdómssamfélagi. Skátarnir þurfa að vera nokkurn veginn á sama máli um grundvallargildi og markmið sameiginlegra verkefna og áhugamálin þurfa að vera svipuð. Ef þeir eru mjög ólíkir að þessu leyti getur það dregið úr samskiptum þeirra og flokkurinn nær ekki eins góðum árangri.

Reynslan hefur sýnt að enda þótt bakgrunnurinn sé ólíkur verða áhugamál, gildi og markmið mikið til þau sömu hjá skátunum í flokknum meðan á lærdómsferlinu stendur. Sjálfsmynd skátaflokksins byggist á því hvernig skátarnir upplifa sérkenni hans, sem aðgreina hann frá öðrum flokkum. Skátaflokkar þróa með sér venjur, skipta verkum á sinn hátt, og finna sér eitthvað sem einkennir þá.

Flokksþingið

Flokksþingið er vettvangur skátaflokksins til að taka ákvarðanir um flokksstarfið. Flokksþingið getur verið hluti af dæmigerðum skátafundi, t.d. stundarfjórðungur í lok hans. Skátaflokkurinn vinnur ýmis verkefni, á eigin spýtur eða með öðrum flokkum í skátasveitinni. Flokksþingið er eini formlegi vettvangurinn til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Allir skátarnir í flokknum taka þátt í því undir stjórn flokksforingjans, sem er einn úr jafningjahópnum. Flokksþing getur komið saman hvenær sem skátaflokkurinn telur þörf á, þó ekki svo oft að það breytist í venjulega flokksfundi. Allar ákvarðanir flokksþings ætti að skrá í dagbók flokksins. Flokksþingið stuðlar að lýðræðisuppeldi skátanna.

Skátarnir deila með sér hlutverkum

Skátarnir úthluta hver öðrum embættum eftir þeim leikreglum sem hafa þróast í flokknum. Flokksforingi og aðstoðarflokksforingi eru alltaf kosnir og eru fulltrúar flokksins í sveitarráðinu. Aftur á móti er valið í önnur embætti eftir nánari ákvörðun flokksins. Flokksforinginn er drifkrafturinn í starfi flokksins, stýrir áætlanagerð og skipulagningu verkefna. Þótt hann sé kosinn af skátunum og gegni mikilvægu forystuhlutverki er hann alltaf einn af hópnum. Aðstoðarflokksforinginn og hinir skátarnir geta líka tekið að sér forystuna þegar þörf er á.

Önnur algeng embætti í skátaflokkum eru t.d. gjaldkeri, ritari, ljósmyndari, leikjastjóri, kynningarstjóri, matreiðslumeistari, sáttasemjari, varðeldastjóri, vefstjóri eða annað sem skátunum dettur í hug. Það er um að gera að hvetja þá til að finna upp ný embætti eftir þörfum og sleppa öðrum sem ekki henta.

Skátarnir skiptast reglulega á um að gegna þessum embættum þótt þeir kunni að vera endurkjörnir ef flokksþingið samþykkir það. Á þennan hátt gefst tækifæri til að þroska ábyrgðartilfinningu, öðlast þekkingu, samhæfa viðhorf og tileinka sér leikni. Skátarnir verða smám saman virkari við að gegna þessum hlutverkum, endurmeta þau reglulega og halda áfram að þróa þau.
Í verkefnavinnu flokksins skipta skátarnir með sér verkum tímabundið.

Gagnkvæmt traust

Rannsóknir í félagsvísindum hafa leitt í ljós að reglur, byggðar á einlægni, tryggð og hollustu verða ríkjandi viðmið og stuðla að gagnkvæmu trausti hjá óformlegum jafningjahópum, meira að segja glæpagengjum. Það er auðvelt að sjá hvernig þetta gerist hjá skátaflokkum. [quote_box_right]Gagnkvæmt traust, einlægni, tryggð og hollusta.[/quote_box_right]