Fullorðnir sjálfboðaliðar

Skátahreyfingin þarf á fullorðnu fólki að halda til þess að markmiðum hennar verði náð. „Skátastarf er skemmtilegt ævintýri með skýr uppeldismarkmið.“ Það þarf fjölda fullorðinna sjálfboðaliða af báðum kynjum til þess að skátastarf fyrir börn, unglinga og ungt fólk geti gengið upp. Sumir vinna beint með skátunum sem sveitarforingjar og aðstoðarsveitarforingjar og er ákjósanlegt hlutfall einn fullorðinn fyrir hverja 8-10 skáta. Aðrir vinna að alls konar viðfangsefnum „baksviðs“ sem nauðsynleg eru til þess að skátastarf blómstri, t.d. stjórnarstörf og margs konar verkefnastjórnun í skátafélögum og hjá BÍS, störf tengd útgáfu, fræðslu- og fjármálum.

[quote_left]Skátahreyfingin þarf á fullorðnu fólki að halda til þess að markmiðum hennar verði náð.[/quote_left]Til að vinna að öðrum verkefnum þarf marga fullorðna sjálfboðaliða, m.a. með margs konar sérþekkingu um rekstur, kynningarmál, fræðslumál og mannauðsmál. Áætlað er að þörfin fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarf á Íslandi sé einn fullorðinn skáti á móti hverjum þremur starfandi skátum á aldrinum 7-18 ára. Í löndum þar sem skátastarf er í blóma er hlutfall fullorðinna skáta í líkingu við þessar tölur.

Eitt sinn skáti, ávallt skáti

Einstaklingurinn heldur áfram að vera skáti þótt fullorðinsaldri sé náð. Sumir taka að sér leiðtogastörf fyrir skátahreyfinguna til að styðja við uppeldishlutverk hennar með beinni tengingu við börn eða ungmenni á aldrinum 7-22 ára. Aðrir taka að sér margs konar verkefni sem gagnast og styðja við skátastarf beint og óbeint – ýmist á vettvangi einstakra skátafélaga, héraðs- eða landssamtaka skáta eða fyrir Alþjóðasamtök skáta. Enn aðrir skátar starfa á vettvangi fullorðinna skáta, t.d. í hjálpar- og björgunarsveitum, í skátagildum og svo mætti lengi telja. Og enn aðrir skera á formleg tengsl við skátahreyfinguna – en halda áfram óformlegu skátastarfi í persónulegu lífi.

„Sjálfboðastarf“ er í orðabókum skilgreint sem eitthvað sem innt er af hendi eða komið af stað af frjálsum vilja og án þvingunar. Þar sem skátahreyfingin er byggð upp af frjálsri þátttöku samþykkja sjálfboðaliðar í skátastarfi og ungu skátarnir tilboðið um uppeldismarkmiðin með því að taka þátt í starfinu af fúsum og frjálsum vilja. Það er hvorki skylda að byrja í skátastarfi eða að halda því áfram. Skátastarf er ekki eins og skólaganga, sem venjulega er skylda á ákveðnum aldri. Ungt fólk ákveður sjálft hvenær það gerist skáti og hvenær það hættir í skátastarfi. Sama gildir fyrir fullorðna sjálfboðaliða.

Bandalag íslenskra skáta hefur markað sér stefnu um fjölgun fullorðinna sjálfboðaliða í skátastarfi, sem byggist á stefnu alþjóðasamtaka skáta og styðst við rannsóknir í félagsvísindum og reynslu skátabandalaga í öðrum löndum.

Engin þörf á að hafa verið skáti sem barn eða unglingur

Það er alls ekki nauðsynlegt að hafa verið skáti áður en maður gerist fullorðinn sjálfboðaliði í skátastarfi. Fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi þurfa líka, eins og ungu skátarnir, að skilja og viðurkenna markmið skátahreyfingarinnar, grunngildin og Skátaaðferðina, þar sem hlutverk þeirra er að vera til staðar, beint eða óbeint, fyrir ungu skátana á þroskaleið þeirra. Þannig verða þeir „fullorðnir skátar“.

Gilwell-leiðtogaþjálfun BÍS veitir nauðsynlega þekkingu og reynslu og stuðlar að þeim persónulega þroska sem þarf til að sinna starfinu. Auk þess hefur BÍS gefið út ítarlegar handbækur fyrir sveitar- og aðstoðarsveitarforingja hvers aldursstigs. Bækurnar eru upphaflega gefnar út af alþjóðasamtökum skáta (WOSM) – en þýddar og staðfærðar fyrir íslenskar aðstæður.

Fjölgun fullorðinna sjálfboðaliða

Ein helsta áskorun allra skátafélaga og skátasveita er að finna nógu marga hæfa fullorðna sjálfboðaliða. Stundum finnum við þá ekki vegna þess að við leitum innan of þröngs hrings. Það er gott að víkka sjóndeildarhringinn og leita á nýjum stöðum, til dæmis meðal:

 • Vina, samstarfsmanna og ættingja. Þeir gætu haft áhuga á skátastarfi í gegnum skátana sem þeir þekkja.
 • Fyrrverandi skátaforingja.
 • Foreldra skátanna.
 • Kennara og annarra sérfræðinga í uppeldisstarfi barna og unglinga.
 • Háskólastúdenta, t.d. þeirra sem leggja stund á nám í uppeldisfræði, tómstundafræði eða tengdum fögum.
 • Fólks sem vinnur hjá félags- og samfélagssamtökum, hjá hjálparstofnunum, þjónustustofnunum, góðgerðarsamtökum eða fólks sem vinnur við uppeldisstörf.
 • Starfsmenn félags- og frístundamiðstöðva og frístundaheimila.

[quote_box_left]Ein helsta áskorun allra skátafélaga og skátasveita er að finna nógu marga hæfa fullorðna sjálfboðaliða.[/quote_box_left]Það þarf að sjálfsögðu að tryggja að einstaklingar sem stunda einelti eða hvers konar ofbeldi komi aldrei nálægt skátastarfi. Bandalag íslenskra skáta gerir kröfur um að allir fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi (sveitarforingjar og aðrir) gefi skriflegt leyfi til að kanna sakaskrá viðkomandi. BÍS gefur út viðmið um forvarnir og gott verklag í skátastarfi ásamt viðbragðsáætlun um hvernig eigi að bregðast við ef eitthvað óeðlilegt kemur upp. BÍS er aðili að Æskulýðsvettvanginum ásamt UMFÍ, KFUM og K og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Af hverju velja fullorðnir að taka þátt í skátastarfi?

Samkvæmt könnunum er langalgengasta ástæðan fyrir sjálfboðaliðastarfi fullorðinna áhuginn á að láta gott af sér leiða og taka þátt í að aðstoða börn og ungmenni við að þroskast og takast á við umhverfið. Vinnuhópar alþjóðasamtaka skáta og BÍS um fullorðna í skátastarfi hafa skilgreint nokkrar fleiri ástæður:

 • Náin tengsl, vinskapur og samstaða sem myndast í hópum fullorðinna sem vinna saman.
 • Löngun til að hafa jákvæð áhrif á ungt fólk.
 • Stuðla að betra samfélagi.
 • Kynnast fólki á öllum aldri.
 • Hver og einn fær stuðning við að þroska nýja færni í öruggu umhverfi.
 • Leiðtogafærni eykst.
 • Löngun til að efla stjórnunar- og skipulagshæfileika.
 • Í skátastarfi þjálfar hver og einn hæfni í verkefnastjórnun, markaðssetningu, samskiptum og fjármálastjórn.
 • Öll ný hæfni sem einstaklingur þroskar í skátastarfinu nýtist og eykur atvinnumöguleika og tækifæri í lífinu.