Skátablaðið hefur verið gefið út og sent á starfandi skáta landsins! Blaðið í ár er með breyttum áherslum þar sem áhersla er lögð á að styðja við gott skátastarf og auðvelda áhugasömum að stunda virkt starf í skátunum. Hér neðar má lesa skemmtilegan pistil frá ritstjóra um breyttar áherslur blaðsins.

Ef að Skátablaðið kom ekki heim til þín þá eru nokkur blöð sem voru endursend í Skátamiðstöðina og einnig eru til nokkur auka blöð fyrir áhugasama.

Hér má nálgast blaðið á rafrænu formi:
:: Rafræn útgáfa Skátablaðsins ::

Hér má nálgast blaðið í prentvænni útgáfu:
:: Skátablaðið – Prentvænt ::

Ritstjórn Skátablaðsins biður lesendur um að svara stuttri könnun um nýja útgáfu blaðsins! Hvað finnst þér um nýjar áherslur og ný viðfangsefni blaðsins? Komdu þínum skoðunum á framfæri með því að taka þátt í könnuninni. Ritstjórn Skátablaðsins þakkar þér fyrir þátttökuna.

:: Smelltu hér til þess að svara könnuninni ::

Ritstjóraspjall,

Breyttar áherslur Skátablaðsins

Fyrir þremur árum síðan bauðst mér að taka þátt í Upplýsingaráði BÍS. Hluti af starfi mínu fyrir ráðið er að semja Skátablaðið. Ég hef gaman að því að skrifa greinar og taka viðtöl og vinnan hefur mér fundist skemmtileg, lærdómsrík og gefandi.

Vinnan á bakvið Skátablaðið er þó meiri en flesta órar fyrir. Það þarf til að mynda að velja viðfangsefni, skrifa greinar, endurskrifa greinarnar, hella upp á kaffi, finna réttu myndirnar, prófarkalesa, brjóta um blaðið, drekka kaffið, safna auglýsingum og ýmislegt fleira. Því er mikilvægt að blaðið skili tilsettum árangri og þjóni tilgangi sínum, en þá er einmitt nauðsynlegt að staldra aðeins við og velta fyrir sér: Hver er tilgangurinn með útgáfu Skátablaðsins?

 

Upplýsingar á nýjum vettvangi
Ég hóf smá rannsóknarvinnu og skoðaði eldri eintök af blaðinu. Það sem ég sá voru blöð sem höfðu þann tilgang að upplýsa skáta landsins um allt það helsta sem skeð hafði síðastliðið ár.

Upplýsingaflæði er vissulega mikilvægt fyrir félagasamtök á við skátana, en í dag höfum við fleiri leiðir til þess að uppfylla upplýsingaskylduna. Í einu orði: Netið. Við erum með nokkra vefi á vegum skátanna, Facebook-hópa, Instagram-aðgang og síðast en ekki síst; Þriðjudagspóstinn.

Gott skátastarf er góð auglýsing

Svo virðist sem að ákveðinn samhugur sé innan skátahreyfingarinnar um að besta auglýsingin fyrir skátana sé gott skátastarf. Stuðningur við skátaforingjann skiptir þar höfuðmáli.

Þetta blað gengur út á skátastarf. Blaðið er ekki upptalning á atvikum og afrekum skátanna síðastliðið ár, heldur verkefnamiðað upplýsingarrit fyrir alla þá sem vilja stunda virkt skátastarf næsta veturinn og í framtíðinni. Í stað greinargerða um starfsemi skátanna síðustu misseri, þá kynnir blaðið hvern aldurshóp fyrir sig með fjölbreyttum verkefnum. Landsmót aldursbila og umhverfið eru sérstök áhersluatriði í blaðinu.

Tilgangur blaðsins er hreinlega að stuðla að góðu skátastarfi með hugmyndum að verkefnum. Von ritstjórnar er að blaðið komi til með að nýtast sem hugmyndabanki fyrir einstaka skáta, sveitir, flokka og sjálfboðaliða. Að blaðið sé tímalaust, nýtist sem kynningarefni og geymist á góðum stað.

Ég vona að þið séuð jafn spennt fyrir blaðinu og ég er!

Bestu kveðjur til ykkar allra,
Vigdís Fríða