Sjálfboðin vinna með brosi á vör

Það var mikið um að vera á Úlfljótsvatni í dag en þá fór fram fyrsta VISTA-helgin á staðnum en VISTA stendur fyrir viðhald og standsetningu og var unnið að ýmsum verkefnum til að undirbúa staðinn fyrir veturinn.

Á svæðinu voru einnig öflugur hópur Gilwell-skáta sem um árabil hafa unnið að endurbótum á Gilwell-skálanum. Þessi harðkjarni er hluti af Gilwell-hringnum og hefur mætt nánast óslitið allar helgar frá árinu 2009 og lagt sig fram um að endurbæta þetta magnaða hús sem er það fyrsta sem skátar reistu við Úlfljótsvatn.

Nýtt þak yfir höfuðið!

Nýtt þak yfir höfuðið

„Við byrjuðum á undirstöðunum og endurnýjun á gólfi fyrir nokkrum árum og höfum verið að þoka okkur upp á við“ segir Væk (Viking Eiríksson) með brosi á vör. „Þetta verkefni hefur bæði verið tímafrekt og kostnaðarsamt en við höfum glaðir lagt okkur fram um að gera þetta sem best úr garði og nú fer að styttast í að stóru verkefnin klárist“.

Í sumar hefur áherslan verið lögð á þakið, gamla bárujárnið var rifið af, þakið klætt að nýju og einangrað og í dag var verið að leggja lokahönd á lagningu nýs bárujárns."Fiðlararnir á þakinu": Atli B. og Væk.

Að gera sitt besta

„Þetta er svona eins og með skátaheitið“, segir Atli B. Bachmann, einn af sjálfboðaliðunum sem lagt hafa drjúga hönd á plóg síðustu árin. „Við einfaldlega lofuðum því að gera okkar besta og eftir því höfum við farið. Hér höfum við eytt nánast hverri einustu helgi undanfarin ár enda af mörgu að taka við endurbætur á þessu merkilega húsi“.

Fyrir næstu kynslóðir

„Gilwell-skálinn hefur fyrir mörgum verið hjartað í húsakosti Úlfljótsvatns allt frá því að hann var byggður árið 1941“ segir Svanur Ingvason. „Sú vinna sem við höfum lagt í endurbætur á síðustu árum gerir það vonandi að verkum að húsið mun verða glæsilegur minnisvarði fyrir næstu kynslóðir um þann glæsibrag og stórhug sem einkenndi landnám skáta hér við Úlfljótsvatn á sínum tíma og hvatning til þeirra sem nú stýra skátaskútunni til frekari dáða“.

Björgvin hefur verið með frá upphafi!

Björgvin hefur verið með frá upphafi!

Að láta gott af sér leiða

Auk Svans, Væk og Atla B. hafa þeir Atli Smári, Haukur Haralds og fleiri góðir skátar dregið vagninn í endurbótum Gilwell-skálans á undaförnum árum. „Auðvitað hefðum við stundum viljað hafa fleiri hendur en það þýðir ekki að fást um það“ segir Svanur. „Þetta starf er gríðarlega gefandi, hér erum við saman góðir skátabræður helgi eftir helgi, njótum félagskaps hvers annars og látum gott af okkur leiða – og svo höfum við auðvitað frábæran kokk með í för sem sér til þess að við höfum kraft í þetta allt saman“ segir Svanur að lokum en umræddur kokkur er enginn annar en DCC sjálfur, Björgvin Magnússon, sem framreiðir skreytt smurbrauð og krásir í hverri vinnuferð.

Hefur verið með frá upphafi

Björgvin var meðal sjálboðaliða við byggingu hússins sem var vígt árið 1943 en kom svo til starfa á staðnum sem stjórnandi sumarbúða árið 1947 og hefur verið virkur í starfinu allar götur síðan.

/gp
:: Ljósmyndir á Facebook
:: Eldri frétt um Gilwellskálann

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar