Sigríður tekin við stjórn Skátamiðstöðvarinnar

Sigríður Ágústsdóttir er tekin við starfi skrifstofustjóra Skátamiðstöðvarinnar í Hraunbænum, en hún var ráðin  úr stórum hópi umsækjenda.  Sigríður býr að fjölþættri starfsreynslu , en hún var sl. 12 ár í Tækniskólanum við ýmis stjórnendastörf, m.a. sem gæðastjóri og endurmenntunarstjóri í 5 ár, þróunarstjóri í 2 ár og skólastjóri Hönnunar- og handverksskólans í 4 ár.   Hún er menntaður kennari og ferðamálafræðingur, auk þess að hafa tekið diplómanám í rekstri og stjórnun.
Sigríður Ágústsdóttir skrifstofustjóri Skátamiðstöðvar

Sigríður Ágústsdóttir skrifstofustjóri Skátamiðstöðvar

Sigríður mun stýra öllum daglegum  rekstri Skátamiðstöðvarinnar sem er hjartað í þjónustu Bandalags íslenskra skáta.   Á verksviði hennar verða þannig samskipti við skátafélögin í landinu til að tryggja stuðning við þau og skátastarfið í landinu. Þá er Sigríður umsjónaraðili stefnumótunarvinnu  skátanna og mun hún í samstarfi við stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) stýra innleiðingu hennar.   Daglegur rekstur Skátamiðstöðvarinnar og starfsmannahald, áætlanagerð og eftirfylgni verkefna fylgir svo með í pakkanum.

Sigríður verður ekki ein með þennan verkahring allan heldur leiðir hún hóp reyndra starfsmanna í þessari vinnu, en það eru þau Júlíus Aðalsteinsson, félagsmálastjóri, Dagbjört Brynjarsdóttir, verkefnastjóri fræðslu- og dagskrármála og Eva Rós Sveinsdóttir þjónustustjóri.

Býr að reynslu úr skátastarfi

Sigríður er spennt að takast á við ný verkefni og segist finna að gamla skátahjartað slái enn. Sem Vesturbæingur gekk hún snemma í Ægisbúa og var þar í mörg ár og státar af forsetamerkinu.  Hún segist búa að reynslu sinni í skátastarfi og það ásamt því að vera í sveit í öll sumur hafi lagt góðan grunn að því að nóta náttúru og útivistar.   Helstu áhugamál Sigríðar eru útivera í ýmsum myndum, einkum göngur um fjöll og firnindi, svig- og gönguskíði og svo er hjólið stigið þess á milli.

Fullmönnuð Skátamiðstöð

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri BÍS er að vonum ánægður með að vera búinn að ráða í þær stöður sem skipurit BÍS gerir ráð fyrir og býður Sigríði velkomna í öflugan hóp. Hermann segir að nú muni honum gefast svigrúm til að vinna að ýmsum málum sem hafa þurft að bíða vegna annríkis.  Fyrr á árinu var ráðið í stöður framkvæmdastjóra Grænna skáta, viðburðastjóra vegna World Scout Moot og Landsmóts, sem og þjónustustjóra. Þannig séu allir póstar mannaðir og auðveldara verði að fylgja eftir metnaðarfullum stefnumálum.   Nánari upplýsingar um starfsmenn og verkahring þeirra hér á Skátamálum

 

Tengt efni:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar