Samfélag og lýðræði í Drekaveröld

Hvernig virkar samfélagið og getur það verið áhugavert verkefni hjá drekaskátum að finna út úr því. Er þetta ekki of flókið verkefni fyrir 7 – 9 ára skáta?
Flottur fáni Drekaveraldar

Flottur fáni Drekaveraldar

„Við ákváðum að nota einn dagskrárhring og skapa Drekaveröld og læra um hvernig samfélagið virkar á óhefðbundinn hátt,“ segir Dagbjört Brynjarsdóttir eða Dagga eins við flest þekkjum hana. Hún er með drekaskátasveit í Mosverjum. Hugmyndin kviknaði í janúar á fundi Döggu drekatemjara og ofurdrekanna hennar, eins og hún kallar foringjahópinn sinn á léttum nótum.

„Fyrsti fundurinn með drekaskátunum fór í hugarflug  eða „Brainstorm“ um hvað við þurfum að hafa í samfélagi til þess að það virki og þegnar landsins séu sáttir. Notaðir voru „post it“ miðar og allar hugmyndir settar á blað,“ segir Dagga. Það þurfti að finna nafn á landið, taka afstöðu til hvort vera ætti lýðræði eða einræði, hvers konar þjóðhöfðingja þau vildu og margt margt fleira.

Samfélag byggt frá grunni.

Þetta var í febrúar og næstu fjórir fundir fóru svo í að framkvæma og ræða það sem ákveðið hafði verið um Drekaveröldina. Sveitin starfar í tveimur hópum og ákváðu báðir hóparnir að hafa lýðræði og þá þurfti að búa til lög fyrir landið. Einnig þurfti að búa til fána og ákveða þjóðarrétti. Landakort yfir landið var gert og einnig borgarskipulag með götukorti og öllum þeim stofnunum sem samfélagið þarf á að halda svo sem skóla, flugvöll, konungs- eða foretahöll, spítala, lögreglustöð og allt sem þau vildu finna í höfuðborgum.

Döggu fannst merkilegt að sjá hvað skólar eru mikilvægir í augum barna því í öðrum hópnum var ákveðið að hafa sex skóla.

Lög í landinu og skátalögin

„Þegar við ákváðum lög fyrir löndin okkar var byrjað á því að ræða mikilvægi laga í samfélagi. Skátalögin voru skoðuð og rædd og einnig hvers vegna við höfum lög í löndum. Hvernig gengi umferðin fyrir sig ef ekki væru umferðarlög,“ rifjar Dagga upp.

„Það skemmtilegasta við þetta verkefni var að sjálfsögðu að fá sýn drekaskátana á samfélagi. Í lögum annars hópsins má t.d. finna: Smádrekar mega ekki spúa eldi nema fullorðinn dreki sé með þeim. Þetta má endurspegla í heim drekaskátanna að börn mega ekki vera með eld nema fullorðnir séu viðstaddir. Einnig mátti finna: Drekar mega ekki fljúga fyrr en vængirnir eru fullvaxta og þetta má endurspegla í því að enginn má keyra bíl fyrr en hann hefur þroska og reynslu til“.

Stolt af verkefninuVerkefninu var síðan lokið með því að halda kynningu fyrir foreldra drekaskátanna og var hún haldin 1. apríl.  Báðir hóparnir kynntu hvor sína drekaveröld.  Sýnd voru landakort, götukort, plagöt með lögum landanna og fleira. Einnig voru starfrækar fréttastofur sem fluttu fréttir úr drekaveröldinni með tilheyrandi auglýsingum og veðurfréttum. Þjóðarréttir voru bornir á borð sem samanstóð af kúrekasnakki, ostapinnum og sviðasultu.

Gert var landakort, borgarskipulag og lög fyrir drekaveröldina

Gert var landakort, borgarskipulag og lög fyrir drekaveröldina

Skemmst er frá því að segja að Dagga drekatemjari var að springa úr stolti yfir drekunum sínum sem stóðu fyrir framan allan foreldrahópinn og sýndu það og sönnuðu að þau eru virkir samfélagsþegnar hvort sem veröldin er stór eða lítil, ævintýraleg eða alvöru.

„Drekar eru bestir“ segir Dagga ánægð með sína skáta.

 

Orðskýringar:

Drekaskátar:  http://skatarnir.is/7-9-ara/

Dagskrárhringur:  Starfið er skipulagt í nokkrum tímabilum sem heita dagskrárhringir og innan hvers hrings er ákvörðun, samráð, framkvæmd og endurmat.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar