RUS, hvað er það eiginlega?

Ungir talsmenn, Rödd ungra skáta og Ungmennaþing eru allt viðburðir skipulagðir af Ungmenna- og Upplýsingaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Hver er eiginlega munurinn á Ungum talsmönnum og Rödd ungra skáta, er þetta ekki nákvæmlega það sama? Hvers vegna þarf að vera svona mikið af þessum sömu viðburðum? Þetta eru algengar spurningar sem vakna meðal skáta þegar rætt er um þessa rekka- og róverskáta viðburði. Hver ætli sé ástæðan fyrir því? Líklegasta svarið er upplýsingaleysi og langar mig því sem starfsmaður Ungmennaráðs og Upplýsingaráðs (og skipuleggjandi þessara viðburða) að nota þessa grein til að skýra þetta betur.

Byrjum á Ungum Talsmönnum. Viðburði skipulögðum af Upplýsingaráði og Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Ungir Talsmenn er viðburður fyrir rekka- og róverskáta sem hafa gaman að eða langar verða betri í samfélagsmiðlanotkun, myndatöku, og framkomu í fjölmiðlum. Hefur þig alltaf langað að bæta sviðsframkomu þína? Veist þú ekki alveg hvernig sjónvarpsviðtöl virka? Langar þig að læra að verða betri snappari?  Þá er Ungir Talsmenn fyrir þig, þar sem þú getur lært allt þetta og margt fleira“.

Semsagt; Ungir talsmenn er helgarviðburður þar sem skátar geta fræðst um samfélagsmiðla, framkomu, ljósmyndun og margt fleira.
Í ár verður Ungir Talsmenn haldinn á Akureyri helgina 24.-26. febrúar: Nánar um það hér.

Ungmennaþing er viðburður skipulagður af Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Tilgangur Ungmennaþings er að skátar á rekka- og róveraldri (16-22 ára), fái tækifæri til að ræða um sitt skátastarf. Sömuleiðis er tilgangur þingsins að kynna Skátaþing og hvernig er hægt að hafa áhrif í gegnum það“

Ungmennaþing er því í raun eins dags þing þar sem skátarnir geta komið hugmyndum sínum á framfæri. Þau geta fengið að kynnast Skátaþingi og hvernig innri virkni Bandalagsins er. Auk þess er þetta gott tækifæri til þess að koma með hugmyndir að tillögum til lagabreytinga sem síðan er hægt að setja fram á Skátaþingi. Þetta er þá eins konar byrjunarskref fyrir þá sem t.d. eiga eftir að sitja Skátaþing og vita ekki alveg hvernig það gengur fyrir sig eða fyrir þá sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í fastaráð BÍS en vita ekki hvernig þau starfa.
Í ár verður Ungmennaþing haldið í Hraunbyrgi 11. febrúar. Nánari upplýsingar er að finna hér.

 

Síðast en ekki síst er Rödd ungra skáta. Viðburður skipulagður af Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

RUS er frábært tækifæri fyrir alla rekka- og róverskáta til að ræða málin og hafa gaman. Er eitthvað sem brennur þér á hjarta? Hefur þú skoðun á hvenær næsta landsmót verður haldið? Langar þig að hafa áhrif á störf Ungmennaráðs í vetur? Ef svo er þá er RUS viðburður fyrir þig! Við ætlum að kynna okkur hvað er að gerast í skátastarfi á Íslandi og erlendis.“

Rödd ungra skáta eða RUS eins og viðburðurinn er oft kallaður er helgarviðburður þar sem skátar geta komið saman og rætt mál líðandi stundar. Þau fá tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri. Ekki bara í fyrirframákveðnum málefnum heldur öllu því sem rekka- og róverskátarnir hafa áhuga á í sínu starfi. Þau fá tækifæri til að kynnast öðrum rekka- og róverskátum á Íslandi, kynnast Ungmennaráði og hafa áhrif á störf ráðsins.
RUS í ár verður haldið með aðeins óhefðbundnu sniði. Þar sem viðburðurinn féll niður í október í fyrra verður haldin RUS dagur, 25. mars til að bæta fyrir það. Hann verður með sama sniði og RUS helgin átti að vera, dagskráin verður bara styttri. Nánari upplýsingar um RUS daginn koma fljótlega, stay tuned!

 

Ég vona að þessi texti hafi skýrt málin fyrir ykkur og jafnvel vakið hjá ykkur áhuga fyrir því að mæta á einhvern þessara spennandi viðburða, ef ekki alla. Þessa viðburði má nefninlega hugsa sem einskonar „3 fyrir 1 pakka“. Tækifæri til að æfa sig í framkomu, á samfélagsmiðlum og annars staðar og nota síðan þá reynslu í að koma hugmyndum sínum á framfæri og jafnvel í framkvæmd.

 

En af hverju þessir viðburðir?… Við erum að halda þessa viðburði því við teljum þá vera áhugaverða, skemmtilega og fræðandi. Eru þeir það? Það er fyrir ykkur, rekka- og róverskáta að segja okkur. Viljið þið kannski sjá eitthvað allt annað…t.d. hörku vetrarútilegu upp á Hellisheiði?! Þá er um að gera að láta okkur vita…

Ef þið hafið einhverjar athugasemdir við þessa viðburði eða öðru tengt rekka- og róverskátastarfi getið þið haft samband við Ungmennaráð hér. Ef þið hafið síðan aðrar hugmyndir sem tengjast rekka- og róverskáta viðburðum/dagskrá er um að gera að láta okkur vita. Já, eða mæta á einhverja af þessum viðburðum, þar er kjörið tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri!

 

Salka Guðmundsdóttir, starfsmaður Ungmenna- og Upplýsingaráðs, róverskáti í Mosverjum. 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar