Ofurpeppað á Grundarfirði um helgina

„Skráningin fór fram úr væntingum og verður fjöldi dróttskáta, rekkaskáta og foringja á Peppinu yfir áttatíu,“ segir Marta Magnúsdóttir, en hún er ein af Skátpeppurum sem stendur fyrir viðburði á Grundarfirði um helgina.  Þátttaka frá skátafélögum á Vesturlandi er áberandi góð og tengir Marta það við staðsetningu Peppsins að þessu sinni.
Inn á þessa mynd komust færri en vildu.

Inn á þessa mynd komust færri en vildu.

„Á Skátapeppinu um helgina munum við leggja ríka áherslu á dagskrárhringinn vegna þess að við teljum hann vera frábært verkfæri fyrir skátaflokka á öllum aldri til að njóta þess vel sem skátastarf getur boðið upp á,“ segir Marta.

Áhersla á athafnanám

„Skátapepp er fyrst og fremst námskeið en við leitumst við að halda því í skátamótsstemningu svo það endurspegli vel hvað við erum að læra og tileinka okkur, skátastarfið og athafnanám,“ segir Marta.  Þátttakendur vinna í flokkum innan síns aldurssviðs og læra af eigin raun hvernig dagskrárhringurinn virkar og peppa þannig hvert annað upp í gæðaskátun. Einnig fara rekkaskátarnir yfir atriði sem tengjast því að vera foringi skátasveitar og hverju þarf að huga að.

„Við hlökkum til að eiga góða helgi saman og kynnast nýjum skátavinum. Von okkar er að allir þeir sem upplifi Skátapepp verði skátapeppaðir og glaðir í lífinu með nýja vini og góðar stundir,“ segir hún.

Þrjú skátapepp á ári

Skátapepp er yfirheiti foringjanámskeiða fyrir drótt- og rekkaskáta. Harpa Ósk Valgeirdóttir, sagði í samtali við Skátamál í sumar þegar undirbúningur að Pepporee-mótinu á Úlfljótsvatni stóð sem hæst, að stefnan væri að halda þrjú skátpepp á ári og hvert þeirra hefði sitt þema. „Stærsta námskeiðið er haldið í ágúst og er 5 dagar, það er míní útgáfa af landsmóti og undirbýr skátana fyrir það að fara sem foringjar á stórt skátamót. Þaðan kemur nafnið Pepporee, þvi þetta er skátapepp í jamboree búning. Þrátt fyrir að námskeiðið sé haldið fyrir bæði drótt- og rekkaskáta á sama tíma, er alltaf stór hluti dagskrár í sitt hvoru lagi og með allt öðrum áherslum fyrir þessa tvo aldurshópa. Rekkaskátarnir taka meiri ábyrgð og beina sjónum sínum að því hvernig er að stjórna skátasveit á meðan dróttskátarnir læra meira um að taka ábyrgð á sjálfum sér og flokknum,“ segir Harpa Ósk.

Tengt efni

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar