Metþátttaka er í skráningu á skátaþingi sem haldið verður á Akureyri um helgina, en alls taka 164 skátar þátt í þinginu.  Skátaþing verður sett að viðstöddum boðsgestum á föstudagskvöld kl. 18.30 og að þeirri hátíðarstund lokinni tekur við aðalfundur Bandalags íslenskra skáta (BÍS) þar sem meðal annars verður gengið til kosninga.

Í vetur voru snarpar umræður meðal skáta um starfshætti og vinnubrögð stjórnar. Þessi ágreiningur leiddi til þess að þáverandi skátahöfðingi, Bragi Björnsson, sagði af sér í janúar og tók þá Fríður Finna Sigurðardóttir við embætti skátahöfðingja. Hún tilkynnti tilkynnti á aukaskátaþingi í febrúar að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Öll stjórn BÍS tilkynnti í framhaldi að hún óskaði eftir endurnýjuðu umboði.

Miklar breytingar verða á stjórn

Miklar breytingar verða á stjórn Bandalags íslenskra skáta, en hún er skipuð átta manns. Helmingur nýrrar stjórnar er sjálfkjörinn en kosið verður í hin fjögur embættin og eru þar 10 manns í framboði:

Sjálfkjörin eru Jón Þór Gunnarsson sem formaður alþjóðaráðs til eins árs, Harpa Ósk Valgeirsdóttir sem formaður dagskrárráðs til eins árs, Björk Norðdahl sem formaður fræðsluráðs til eins árs og Berglind Lilja Björnsdóttir sem formaður ungmennaráðs til þriggja ára.

Fjögur þeirra sem eru í framboði núna sátu í fyrri stjórn, þau Ólafur Proppé, Sonja Kjartansdóttir, Jón Þór Gunnarsson og Berglind Lilja Björnsdóttir. Nýir í stjórn verða því að minnsta kosti fjórir og einnig er öruggt að konur verða í fjórum sætum. Mögulegt er að konur muni sitja í sjö sætum af átta.

Vilja fá fleiri fullorðna til þátttöku

Skátarnir vilja fá fleiri fullorðna til þátttöku og er yfirskrift skátaþingsins „Fjölgun fullorðinna og málefni sjálfboðaliða“. Farið verður yfir stefnumótun og aðgerðir með áherslu á fjölgun sjálfboðaliða og stuðning við skáta í sjálfboðnum störfum innan skátahreyfingarinnar.  Sigríður Ágústsdóttir stjórnandi í Skátamiðstöðinni segir að umræðan í vetur hafi leyst úr læðingi mikinn velvilja í garð skáta. Margir hafi haft samband og lýst yfir áhuga á að leggja skátunum lið. Hún segir að þess sjáist einnig merki í fjölda framboða til stjórnar, sem og í góðri skráningu á þingið.

Á laugardag verða umræður þingfulltrúa og um þema þingsins, auk þess sem opnar verða kynningar um fjölmörg verkefni sem skátar eru með í deiglunni.