Námið tengt betur við starfið

„Við viljum tengja námið betur við það sem er að gerast í skátastarfinu og veita þátttakendum betri innsýn í skátastarf á vettvangi og hvernig Skátaaðferðinni er beitt í raun,“ segir Ólafur Proppé skólastjóri Gilwell-skólans á Íslandi, en gerðar hafa verið breytingar til að færa leiðtogaþjálfunina nær því sem er að gerast í skátastarfinu.

Breytingin tekur til þriðja skrefsins af þeim fimm sem Gilwell-leiðtogaþjálfuninni byggist upp á.  Á fimmtudag hófst þriðja skrefið og voru yfir 40 þátttakendur mættir til leiks. Um helmingur var í Skátamiðstöðinni en margir þátttakenda út á landi tengdust yfir Skype.

Ólafur Proppé skólastjóri Gilwell-skólans á Íslandi

Ólafur Proppé skólastjóri Gilwell-skólans á Íslandi

 Vettvangsskoðun víkkar sjóndeildarhringinn

Þátttakendurnir munu á næstu vikum fara í vettvangsferðir og kynna sér skátastarfið hvort heldur er á skátafundum, dagsferðum eða útilegum. Þeir velja sér aldursstig til að vinna með og geta unnið það hvort heldur einir sér eða með öðrum þátttakendum. Að sjálfsögðu allt í samráði við þá skátaforingja sem stjórna starfinu á hverjum stað.  Hvatt er til að vettvangsskoðunin fari fram hjá öðru skátafélagi en því sem þátttakandi starfar með alla jafna.

„Þessi breyting er tilraun til að víkka sjóndeildarhringinn,“ segir Ólafur, en áður var fræðsla um einstök verkefni eins og t.d. útieldun eða leikir eða söngvar, sem að sögn Ólafs var vissulega mikilvægt en var þrengra sjónarhorn.

Eftir heimsóknirnar gera þátttakendur grein fyrir sinni reynslu og einnig eigin hugmyndum og upplifun. Mikil áhersla er lögð á að þátttakendur myndi sér igrundaða skoðun á því hvernig skátastarfið er og hvort það sé í samræmi við Skátaaðferðina sem kennd er í fyrstu tveimur skrefum leiðtogaþjálfunarinnar.

 

:: Nánar um Gilwell-leiðtogaþjálfunina

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar