Mikilvægt að rödd ungs fólks heyrist

„Það er virkilega gefandi og lærdómsríkt að vera innan um svona mikið af metnaðarfullu ungu fólki sem hefur einlægan áhuga á að gera skátahreyfinguna betri. Það var sérstaklega mikill innblástur fyrir mig til að móta markmið og starf nýja ungmennaráðsins okkar,“ segir Bergþóra Sveinsdóttur sem nú í ágúst sótti alþjóðlegt ungmennaþing skáta.

ungmennathing-slovenina2014Bergþóra er formaður ungmennaráðs íslenskra skáta en það var kjörið á Skátaþingi í vor í fyrsta sinn. Hún segir heimsþingið hafa boðið upp á gott tækifæri til að læra af öðrum og ræða saman margvísleg málefni er snerta ungt fólk í heiminum í dag. Einnig voru gerðar margvíslegar breytingar á framtíðarsýn og áherslum alþjóðabandalags skáta næstu þrjú árin.

Ungmennaþing skáta (World Scout Youth Forum) er haldið af alþjóðabandalagi skáta (World Organization of the Scout Movement – WOSM). Þingið í ár var það tólfta í röðinni og í ár var það haldið í Slóveníu 4. – 7. ágúst. Ungmennaþingin eru haldin í tengslum við heimþing WOSM til gefa ungu fólki sterkari rödd innan skátahreyfingarinnar. Bergþóra segir að margt af því sem samþykkt var á ungmennaþinginu hafi einnig verið samþykkt á heimsþingi skáta. Samþykktar voru þingsályktunartillögur sem fjölluðu meðal annars um mannréttindi og skátaheitið.

„Við unnum saman með okkar eigin bandalögum og náðum markmiðum okkar. Það má því að segja að við höfum náð að vinna nokkra sigra. Hins vegar eru þeir smáir samanborið við þá sem við þurfum að ná í komandi framtíð, en góðir hlutir gerast hægt. Það er frábært að WOSM leggi áherslu á að rödd ungs fólks heyrist og ég finn að það er mjög mikilvægt en það er alltaf hægt að bæta og gera hlutina enn betur,“ segir Bergþóra.
„Það er alltaf upplifun að taka þátt í alþjóðlegum viðburðum innan skátahreyfingarinnar og alltaf er maður að stíga út fyrir þægindahringinn. Fyrir mig var þetta mjög lærdómsríkt bæði sem formaður ungmennaráðs BÍS og sem manneskju, fyrir utan hvað maður kynnist ótrúlega mikið af fólki og eignast vini sem maður heldur sambandi við út ævina“.

 

Tengt efni:

Viðtal við Bergþóru Sveinsdóttur eftir að hún tók við formennsku í ungmennaráði: Tækifæri fyrir ungt fólk

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar