„Við áttum ekki von á að fá svona góð viðbrögð,“ segir Rúnar Geir Guðjónsson annar skipuleggjenda „Lost in the Lava I – Survival Camp“ sem boðið er til um helgina í fyrsta sinn. Aðeins 20 þátttakendur komast að og þó fyrirvarinn hafi verið stuttur eru aðeins þrjú pláss enn laus. Það er því óhætt að segja að mikill áhugi sé fyrir því að týna sér í skátunum.
Gengið verður um Reykjanesskaga og eina sem þátttakendur fá að vita er að upphafs og endapunktur er skátaheimilið Hraunbyrgi í Hafnarfirði og að gengnir verða rúmir 60 km þá þrjá daga sem viðburðurinn stendur. Markmiðið er að þáttakendur kynnist enn betur eigin styrk og eiginleikum.
Reynt til þrautar á þolrifin
Fjölmargar þrautir bíða þátttakenda sem þurfa að rata með áttavita, komast yfir vötn, finna skýli og sjá sér fyrir mat. Þrautirnar reyna á hæfileika hvers og eins, sem og samvinnu hvers flokks, en gönguhóparnir verða fjögurra manna. Þeir verða ræstir með 20 mínútna millibili á föstudag eftir kl. 4 og búast má við að þá fari að strekkjast á keppnistaugum einhverra.
Þátttakendur eru á aldrinum 15 – 25 ára og þeir verða að vera tilbúnir til að láta reyna á þolrifin. Gengið er úr skugga um að þeir hafi reynslu af útivist eins og þar telur hátt í mati ef þeir hafa tekið þátt vetraráskorun skáta og öðrum skátamótum og útilegum. „Þeir verða að geta gengið langar vegalengdir án þess að hirða um drullu á fötunum og vatn í skónum sínum,“ segir í upplýsingablaði um helgina framundan.
Flokkarnir verða með talstöðvar og GPS-sendi. Þannig vita skipuleggjendur hvar flokkarnir eru og þeir geta haft samband ef eitthvað kemur uppá.
Ekkert Hótel Mamma yfir helgina
Hvorki verður leyft að koma með mat að heiman né kaupa hann á leiðinni. Ef þátttakendum verða á þau mistök að mæta með mat neyðast þeir til að borða hann áður en lagt er af stað eða skilja hann eftir. Það er því óhætt að segja að óvissan í þeim efnum fái að hvíla yfir þátttakendum, en ljóst er að hér verður ekkert Hótel Mamma.
Hverjum gönguflokki er gert að finna sér skýli eða skjól þegar komið er í náttstað. Harðræðið er þó ekki algert því útilegudýna og svefnpoki er á búnaðarlistanum.
Sjálfboðaliði frá Rúmeníu með ferska vinda
Amalia Bohateret, sem er hér á landi sem sjálfboðaliði í tengslum við Erasmus, er hvatamaður að þessum leik. Hún er skáti frá Rúmeníu og hefur skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði notið krafta hennar í sumar og áfram inn í veturinn því hún verður hér fram í desember. „Og kannski lengur,“ bætti hún við.
Amalia hefur áður skipulagt og tekið þátt í slíkum viðburðum og í ljósi sinnar reynslu stakk hún upp á því að boðið yrði upp á slíkan viðburð hérlendis og var því vel tekið. Þó enginn fái að vita leiðina er Amalia búin að ganga hana og sannreyna að hægt er að komast leiðina á tilskyldum tíma, en þetta verður töff.