„Stjórn félagsins hefur unnið markvisst að því að leggja áherslur í starfinu sem uppfylla sett viðmið frá landssamtökunum og stuðlar þannig að því að starfið í skátasveitunum sé metnaðarfullt og eflist,“ segir Hafdís B. Kristmundsdóttir félagsforingi skátafélagsins Vífils í Garðabæ.

Félagið tók í þriðja sinn móti viðurkenningu á gæðastarfi frá Bandalagi íslenskra skáta (BÍS) á sumardaginn fyrsta 23. apríl sl. Bragi Björnsson, skátahöfðingi afhenti félaginu Vífli viðurkenninguna í skátamessu í Vídalínskirkju að viðstöddu fjölmenni.  Skátafélagið Vífill var fyrst allra skátafélaga á landinu til þess að taka á móti þessari viðurkenningu árið 2006 og hefur skilað gæðastarfi síðan þá.

Vífill er enn á réttri leið
Vífill er á réttri leið og hefur verið um

Gæðamatið sem kallað er „Á réttri leið“ hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar snýr það að innra starfi félagsins og hins vegar að umhverfinu sem félagið starfar í.

Því er skipt í fimm hluta:

  • Skipulag félagsins,
  • starf félagsins,
  • fjármálastjórn,
  • fræðslumál/menntun
  • og samstarf.

Skátafélagið þarf að standa skil á ýmsum gögnum til þess að geta staðfest að þar fari fram gæðastarf og má þar nefna ársskýrslur, ársreikninga, starfsáætlanir, viðbragðsáætlanir og fjárhagsáætlun. Sérstök Gæðahandbók er endurskoðuð árlega og að því verki koma skátaforingjar, stjórn og bakland félagsins.

Þegar félag hefur hlotið þessa viðurkenningu getur það á áþreifanlegan hátt sýnt sveitarfélagi og samfélaginu fram á að á vegum þess fari fram gæðastarf. Starfinu er markaður rammi og sett skýr stefna. Gæðamat BÍS er byggt á gæðamati ÍSÍ um fyrirmyndarfélag.

Hafdís segir að starfið í félaginu sé blómlegt um þessar mundir og þar starfar fjölmennur hópur barna, ungmenna og fullorðinna skáta.