Með tilhlökkun inn í starfsárið

Hvar starfa skátafélögin og hvernig er best að byrja?
Skátar í Klakki fóru í útilegu í tilefni kynningardags

Skátar í Klakki fóru í útilegu í tilefni kynningardags

Nokkuð mismunandi er milli skátafélaga hvernig þau hefja starfið. Sum bjóða upp á innritunardag meðan önnur fá nýja félaga inn á fyrstu fundi haustsins.
Við stilkum hér á stóru yfir upplýsingar frá skátafélögunum um hvenær þau byrja.

Á vefsíðunni skatarnir.is er yfirlit yfir skátafélögin.  Þar finnur þú skátafélagið þitt og velur tengilinn skráning.

Klakkur á Akureyri

Fyrst skátafélaga til að kynna starf sitt fyrir nýjum áhugasömum krökkum og foreldrum þeirra var skátafélagið Klakkur á Akureyri, sem var með kynningardag á sunnudag að Hömrum þar sem félagið er með aðstöðu.

Skátarnir í Klakki tóku sinn kynningardag með stæl. Hópur skáta fór á laugardag og setti upp tjaldbúð þar sem þau sváfu nóttina fyrir kynningardaginn. „Krakkarnir tóku virkan þátt í undirbúningnum og þrátt fyrir næturfrost fór vel um okkur.  Á sunnudeginum var boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir gesti og gangandi, hjólabátar og hoppukastali, hikebrauð og kakó og ýmsir póstar að skátasið,“ segir Ólöf Jónasdóttir félagsforingi Klakks ánægð með vel heppnaðan kynningardag.  „Þetta var góð byrjun á skátastarfinu og við höldum full tilhlökkunar inn í starfsárið,“ segir Ólöf.

Settu upp tjaldbúð í tilefni kynningardags

Settu upp tjaldbúð í tilefni kynningardags

Kópar í Kópavogi

Skátarnir í Kópavogi verða með kynningardag í skátaheimilinu við Kópavogslækinn á morgun miðvikudaginn 2. september.  Frá kl. 17 verða skátaforingjar með skemmtilega dagskrá eins og segir á heimasíðu Kópa, sem búast má við að verði uppfærð fyrir kynningardaginn.  Skátaheimilið stendur við Digranesveg 79, svona fyrir þá sem ekki vita hvar Kópavogslækurinn er.

Garðbúar í Bústaðahverfi

Skátafélagið Garðbúar byrjaði með sína skátafundi í dag, en félagið býður upp á starf fyrir drekaskáta 7 – 9 ára og fálkaskáta 10 – 12 ára. Nánar á heimasíðu Garðbúa

Mosverjar í Mosfellssveit

Mosfellingum býðst að sækja kynningardag hjá sínu félagi á laugardag, 5. september, kl. 13 – 16 í skátaheimilinu við Brúarland. Brugðið verður á leik í klifurturni, hækbrauð grillað, kakó kitlar kaffimálin og skátasöngvar liðast um loftið við varðeldinn. Allir eru velkomnir á innritunar og kynningardag í Mosfellssveitinni.

Hraunbúar í Hafnarfirði

Hafnfirðingum er boðið í grillaðar pylsur á opnu húsi næsta mánudag 7. september hjá Hraunbúum í Hraunbyrgi við Víðastaðatún.  Þar munu foringjar svara spurningum forvitinna foreldra og verðandi skáta.

Kynningin er tvískipt (sem er sérlega hentugt fyrir svanga).

 Ægisbúar í Vesturbænum

Hjá skátafélaginu Ægisbúum verða kynningarfundir í næstu viku eða frá 7. september og er boðið upp á nokkra möguleika í fundartímum . Starfssvæði Ægisbúa er Vesturbærinn en félagið hefur einnig verið með starf á Seltjarnarnesi, en ekki er víst hvort það gangi upp í haust eftir því sem segir i frétt á vef félagsins: Upphaf starfs í haust 2015

Hafernir í Efra-Breiðholti

Í Efra-Breiðholti byrjar skátastarfið hjá Haförnum með skráningardegi mánudaginn 7. september í skátaheimilinu að Hraunbergi 12. Fundartímar eru aðgengilegar á vefsíðu félagsins 

Segull í Seljahverfi

Eftir nokkrar lagfæringar á skátaheimilinu í Tindaseli er skátafélagið Segull í startholunum að byrja skátastarfið og fer það af stað á næstu dögum.

Vífill í Garðabæ

Skátafundirnir hjá Vífli hefjast 14. september og þar er stöðugleiki dyggð. Fundardagar eru þeir sömu og síðasta vetur. Skráning hófst þó í ágúst og eru allir hvattir til að skrá sig svo þeir fái tölvupósta með nánari upplýsingum. Heimasíðan er vifill.is

 

Fannstu ekki félagið þitt?

Tékkaðu hér > Listi yfir skátafélög á Íslandi

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar