Með bros í hjarta

Landnemar eru eitt þeirra skátafélaga sem hafa staðið fyrir útilífsskóla í sumar.  Nú í vikunni hófst þriðja námskeið sumarsins og Heiða Kristín Másdóttir skólastjóri Útilífsskólans veitti okkur  innsýn í starfið. Frásögn hennar er hér fyrir neðan, en millifyrirsagnir eru Skátamála.
Heiða er ánægð með árangur sumarsins

Heiða er ánægð með árangur sumarsins

Nú þegar síðasta námskeiðið hjá Útilífsskóla Landnema hefur gengið í garð sest ég niður og ígrunda starfið í sumar með bros í hjarta.

Í sumar höfum við þegar haldið tvö tveggja vikna námskeið og hófst það þriðja og síðasta síðastliðinn mánudag. Þátttakendur hafa verið frá áttunda ári til 12 ára og hafa verið u.þ.b. 20 til 25 talsins hverju sinni. Það var gaman að sjá hversu margir höfðu komið áður, sumir hverjir öll fjögur árin. Flestir þátttakendur voru úr Hlíðunum þar sem Skátafélagið Landnemar er staðsett, því boðið er upp á útilífsskóla í flestum hverfum Reykjavíkurborgar. Oft fylgdu þó með frændur, frænkur og vinir úr öðrum hverfum. Við fengum allnokkra úr Vesturbænum þar sem skátafélagið Ægisbúar var ekki með útilífsskóla í ár.

Útivist, hreyfing og náttúra í anda skátanna

Við skipulag dagskráarinnar í sumar lögðum við mikla áherslu á útivist, hreyfingu og náttúru í anda skátahreyfingarinnar. Við vinnum einnig eftir skátalögunum og eru þau kynnt í byrjun hvers námskeiðs. Við reynum að ganga eða hjóla allt sem við förum, annars er tekinn strætó. Dagskráin innihélt meðal annars ferð á Miklatún, klifur og sig í klettum Öskjuhlíðar, hjólaferð í Laugardalslaug, ferð í Nauthólsvík, vettvangsferðir í slökkviliðið og Hjálparsveit skáta í Kópavogi, strætóferð í sund í Breiðholtslaug, kanó á Rauðavatni, ferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn svo eitthvað sé nefnd. Í fyrri viku hvers námskeiðs er svo sameiginlegur föstudagur með leynilegri dagskrá þar sem útilífsskólar höfuðborgarsvæðisins koma saman og eyða deginum saman. Það kemur af frumkvæði og skipulagninu stjórnenda útilífsskólanna. Við höfum farið í risa póstaleik bæði á Miklatúni og Árbæjarsafni þar sem starfsfólk safnsins tók vel á móti okkur. Þetta er alltaf mikið fjör því þegar öll börnin koma saman eru þau í kringum 140 talsins!

Útilegurnar hafa gengið ótrúlega vel

Í seinni viku námskeiðanna er farið í einnar nætur útilegu frá fimmtudegi fram á föstudag. Í sumar var ákveðið að allir útilífsskólarnir myndu fara saman í útilegur og hefur það gengið ótrúlega vel. Fyrri útilegan var á Hafravatni og seinni útilegan á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Gist er í tjöldum og kvöldmatur grillaður á eldi undir berum himni. Krakkarnir fá einnig að grilla sykurpúða, poppa popp yfir kolum sem og taka þátt í klassískum skátaviðburðum eins og kvöldvöku með tilheyrandi söngvum og nætuleik. Ég veit ekki betri leið til að enda námskeið því það fara allir heim með bros á vör og geta ekki beðið eftir að fá að koma aftur.

Krakkarnir takast á við nýjar áskoranir

Það sem stendur upp úr eftir sumarið er að sjá hversu mikið krakkarnir dafna í þessu starfi. Sumir hverjir koma einir og þekkja ekki neinn í byrjun námskeiðis en fara heim með risastóran vinahóp á bakinu. Námskeiðin hentar einnig vel fyrir orkumikla krakka sem þurfa kannski aðeins meiri útrás í sumarfríinu en mamma og pabbi geta boðið uppá. Krakkarnir öðlast þor og dáð og læra að takast á við nýjar áskoranir sem og að vinna í hóp.

Útilífsskóli skátanna er frábær vettvangur fyrir krakka til að efla félagsfærni og stækka þægindahringinn. Ég er ótrúlega ánægð með sumarið og kveð með kjörorðum Landnema: Heill, gæfa gengi!

Heiða Kristín Másdóttir, skólastjóri Útilífsskóla Landnema

 

Fleiri myndir eru á Facebook síðu skátanna – Opna myndaalbúm

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar