Margir njóta góðs af dósasöfnun skáta

Torfi Jóhannsson tók í haust við starfi framkvæmdastjóra fjáröflunarverkefna fyrir Bandalag íslenskra skáta og stýrir Grænum skátum sem er dósasöfnunin  og Skátabúðinni er þar undir falla margvísleg verkefni.
Við erum að taka stór skref í endurvinnslu, segir Torfi

Við erum að taka stór skref í endurvinnslu, segir Torfi

Torfi segir að frá því hann hóf störf í byrjun september hafi verið í mörg horn að líta og margt sem hann þurfti að kynna sér.  Skátamál vildu fá að vita nánari deili á Torfa og hvort framundan væru áherslubreytingar í rekstrinum.

Það kom Torfa einkum á óvart hve starfið í kringum Græna skáta var fjölbreytt og umfangsmikið. „Ég var ekki búinn að gera mér alveg grein fyrir því hvað þetta snertir marga og hvað margir eru að njóta góðs af þessu starfi sem Grænir skátar eru að vinna,“ segir hann.

Verkefnastjórnun, nýsköpun og vöruþróun

Torfi kemur úr starfi fyrir HK þar sem hann sinnti almennri verkefnastjórnun, sem og umsjón og samræmingu með fjáröflun deilda. Hann er með meistararéttindi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík, en hafði áður lokið viðskiptafræðinámi við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Í skólaverkefnum hefur hann einkum fjallað um rekstur, sem og nýjar leiðir til nýsköpunar og vöruþróunar.

Dósasöfnunin skiptir skáta miklu máli og stöðugt fleiri setja dósir í gjafakassana.

Dósasöfnunin skiptir skáta miklu máli og stöðugt fleiri setja dósir í gjafakassana.

Almenningur vill flokka og endurvinna

„Þetta er mjög spennandi og við fyrstu sýn gríðarleg tækifæri í öllu sem heitir endurvinnsla og mikil sóknarfæri í því,“ segir Torfi aðspurðum um hvernig honum lítist á nýja starfið. „Ljóst að við erum að taka stór skref í endurvinnslumálum á landinu og þar kemur okkar styrkur í því að safna skilagjaldskyldum dósum mikið við sögu. Ljóst er að almenningur er orðinn mikið móttækilegri fyrir því að flokka og endurvinna. Þennan kraft þarf að efla innan fyrirtækja og fá þau til að vera virkari við að flokka og skila dósum og flöskum til okkar. Við munum þurfa að sinna fyrirtækjamarkanum betur og við erum þessa dagana að skipuleggja þá vinnu og undirbúa“.

Torfi er stöðugt í samband við viðskiptavini og er honum umhugað um góða og skjóta þjónustu. Hér í bakgrunni eru tvær kynslóðir söfnunarkassa.

Torfi er stöðugt í samband við viðskiptavini og er honum umhugað um góða og skjóta þjónustu. Hér í bakgrunni eru tvær kynslóðir söfnunarkassa. Þó nýju kassarnir séu hærri er auðvelt að setja í þá dósapoka.

Tækifæri í þjónustu við fyrirtæki og félagasamtök

Torfi segir að auðvitað fylgi því allaf einhverjar breytingar þegar nýir menn koma í brúna, en hann áréttar að mikilvægt sé að hlutir fái að þróast og láta tímann vinna með sér.  „Allar breytingar þurfa að eiga sinn umþóttunartíma og fyrirtæki í góðum rekstri þurfi að þróast og aðlagast nýjum aðstæðum,“ segir Torfi. „Það helsta sem ég kem auga á mínum stutta tíma hér innan Grænna skáta eru þau tækifæri að vinna með fyrirtækjum og félagasamtökum í því að flokka og telja. Það liggja strax tækifæri í því að þjónusta þessa hópa betur“.

Torfi hefur einnig verið að skoða leiðir til að auðvelda alla vinnu og laga til ferla í söfnun dósanna. Hluti af því verkefni var vakta betur söfnunarkassana og nú hafa verið settir skynjarar í nokkra kassa og senda þeir boð þegar komið er að tæmingu eða eitthvað kemur fyrir kassann. „Þannig getum við fylgst með innihaldi þeirra dag frá degi og sótt innihaldið þegar viðeigandi hlutfall er komið í kassann og eins passað kassann betur ef t.d. hann fýkur um koll eða kviknar í honum þá fáum við tilkynningu um allt slíkt um leið og það gerist. Þetta mun verða til  þess að óþrifnaður í og við kassana minnkar því þeir eiga síður að fyllast og fólk skilur þá ekki eftir pokana sína við hliðina á kassanum sem yfirleitt veldur óþrifnaði mjög fljótlega,“ segir Torfi áhugasamur um að bæta þjónustuna. Skynjararnir eru frá finnska fyrirtækinu Enevo, sem hefur síðustu misserin verið að þróa skynjara til þessa brúks. Torfi sér fyrir sér að fleiri geti nýtt sér þessa tækni.

Skátabúðin allan sólarhringinn á hagstæðu verði

Torfi hefur einnig á sinni könnu umsjón með rekstri Skátabúðarinnar og hann segir að þar liggi margvísleg tækifæri.  „Tækifæri Skátabúðarinnar liggja í því að veita skátum landsins sérhæfða þjónustu á þeim vörum sem nýtast skátum í leik og starfi. Nauðsynlegt er að auðvelda skátum aðgengi að Skátabúðinni og það liggur beinast við að koma henni á veraldarvefinn og bjóða þannig skátavörur og aðrar skátatengdar vörur allan sólarhringinn,“ segir Torfi.

Verið er að vinna í þessum málum og gerir Torfi ráð fyrir að þessi þjónusta verði komin í fullan gang með vorinu því að mörgu er að hyggja þegar verið er að setja nýja vefverslun í loftið.

Torfi hefur einnig metnað til að bjóða hagstæð verð. „Ljóst er að allur sá fjöldi skáta sem eru á Íslandi gefur líka tækifæri til að geta boðið frábær verð sem hugsanlega sjást hvergi annars staðar.

Gæti líka verið gaman að bjóða uppá sérhæfðar Íslenskar skátavörur sem væri þá söluvara fyrir erlenda skáta að kaupa í Skátabúðinni. Nauðsynlegt að hugsa reglulega út fyrir rammann og sjá hvar ný tækifæri liggja og minjagripir tengdir Íslensku skátastarfi gæti verið spennandi fyrir erlenda skáta að versla,“ segir verslunarstjórinn.

Drifkraftur í starfi sjálfboðaliða

En hefur Torfi verið í skátastarfi? „Nei, ég hef ekki kynnst skátastarfinu áður og á vissan hátt finnst mér það kostur og jafnframt einn af þeim þáttum sem ég hlakka mikið til að kynnast. Ég hef unnið mikið innan íþróttahreyfingarinnar og þekki töluvert til þar. Mér finnst starf sjálfboðaliðans mjög skemmtilegt og án þeirra værum við ekki með öll þessi tækifæri fyrir börnin okkar og unglingana. Það óeigingjarna starf sem sjálfboðaliðarnir vinna er algjörlega ómetanlegt og hefur drifið okkur áfram í svo mörgu,“ segir hann.

Torfi gengur hér til verka með samstarfsmönnum í þeim hluta starfseminnar sem er verndaður vinnustaður.

Torfi gengur hér til verka með samstarfsmönnum í þeim hluta starfseminnar sem er verndaður vinnustaður.

Hluti starfseminnar er verndaður vinnustaður

Hjá Grænum skátum, sem heitir reyndar strangt til tekið Þjóðþrif ehf. og er alfarið í eigu skáta, starfa í dag 12 starfsmenn í 8 stöðugildum.  Hluti þeirra er í starfi á vernduðum vinnustað og segir Torfi það mjög gleðilegt að vinna í umhverfi sem gefur breiðum hópi starfsmanna tækifæri og verkefni við hæfi. „Stærstur hluti starfsmanna okkar er að vinna við flokkun og umsýslu þeirra dósa sem við fáum í gegnum söfnunarkassana og gámana okkar sem eru á yfir 100 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Þessar dósir eru því ekki bara að gefa æskunni tækifæri til að eflast í skátastarfinu heldur fjölbreyttum hópi starfsmanna vinnu við hæfi,“ segir Torfi.

Sóknarfærin liggja í aukinni þjónustu

Rekstur Grænna skáta eða Þjóðþrifa ehf. hefur í gegnum tíðina ekki alltaf verið auðveldur, en Torfi er bjartsýnn. Auðvitað þurfi alltaf að vera vakandi yfir rekstrinum og tryggja hagsýni í rekstri.  „Þau sóknarfæri sem snúa að mínu starfi er að finna nýjar leiðir til að efla þjónustuna við þá sem eru að safna dósum eins og til dæmis við allan þann fjölda fyrirtækja og hópa sem eru að þessu í fjáröflunarskyni. Þar getum við með sérhæfingu við flokkun og talningu veitt framúrskarandi þjónustu sem felur í sér að við sækjum, flokkum, teljum og borgum,“ segir Torfi og útskýrir nánar viðskiptahugmyndina  „Við sækjum dósirnar til fyrirtækja, við flokkum og teljum þær og skilum síðan ágóðanum til þeirra. Þannig sleppur fyrirtækið við allt umstangið en fær skilagjaldið greitt gegn hóflegu hlutfalli af því skilagjaldi sem er í boði hverju sinni.“

Torfi er sífellt á þönum í heimsóknum til fyrirtækja og segir að það sé best að fólk hafi samband. Aðstæður séu breytilegar og því gott að útskýra hlutina nánar í samtali. Sumir þurfa að losna við flöskur og dósir hratt og vel, meðan aðrir vilja láta sækja sjaldnar.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar