Margir kjósa sumarbúðirnar

Nokkrar vikur í Sumarbúðum skáta á Úlfljótsvatni eru nú þegar fullbókaðar.  „Nú er fullt á þrjú námskeið í júní og júlí, en við eigum nokkur laus pláss 14. júlí og við bættum inn aukanámskeiði í ágúst,“ segir Guðrún Ása Kristleifsdóttir stjórnandi sumarbúðanna á Úlfljótsvatni.
Guðrún Ása hefur í mörg horn að líta í sumar

Guðrún Ása hefur í mörg horn að líta í sumar

Námskeiðið sem bætt var inn verður 11. – 15. ágúst og er fyrir 10 – 12 ára krakka. Sumarbúðirnar eru opnar öllum krökkum óháð því hvort þau eru skátar eða ekki. Guðrún Ása segir að margir þátttakendur komi fyrst í sumarbúðirnar og fari svo í skátana um haustið, enda þá búin að prófa skátastarfið.Einnig eru laus pláss á unglinganámskeiðum sem verða í júlí og ágúst.

 Unglingar á ævintýranámskeiðum

Meðal nýjunga sem kynntar voru fyrir sumarið eru útivistarnámskeið fyrir unglinga. Þau verða haldin í júlí fyrir 13 – 15 ára unglinga með ADHD greiningu. Guðrún Ása er nýkomin af námskeiði hjá ADHD-samtökunum til að geta betur mætt þörfum einstaklinga í þessum hóp.  Enn eru laus nokkur pláss á námskeiðið í júlí.

Einnig verður haldið almennt unglinganámskeið fyrir 13 – 15 ára.  „Þetta námskeið er ekki bara til að hafa ofan af fyrir unglingunum í sumar heldur einnig til að búa þau betur undir að vera þátttakendur í útivist í dagslegu lífi allan ársins hring“, segir Guðrún Ása.
Bæði ADHD og Unglinganámskeiðið eru fyrir 13-15 ára krakka og þau eru 6 daga. Meðal þess sem verður gert á námskeiðinu er ferð í skátaskála á Hellisheiði þar sem gist verður eina nótt, klifurturninn verður notaður óspart og bátarnir ná varla að þorna milli ferða. Unglinganámskeiðin eru sérstaklega spennandi fyrir skáta enda verða verkefnin bæði krefjandi og spennandi.

 

Sjá tengda frétt: Unglingar á fjöll og út á vatn

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar