Mannréttindi og óbreytt skátaheit

Skátaþingi 2014 lauk í gær og undir lok þingsins voru samþykktar yfirlýsingar um mannréttindi og frið. Einnig var samþykkt sérstök ályktun um réttindi hinsegin fólks í Úganda.

Engar lagabreytingar voru gerðar á Skátaþingi, en fyrir þinginu lágu heildarbreytingar á lögum Bandalags íslenskra skáta. Tvær tillögur um nýtt skátaheit hlutu heldur ekki brautargengi, en voru felldar með rúmum helmingsmun, 37 með en 42 atkvæði á móti breytingu.

Salurinn var þéttskipaður á fjölsóttu Skátaþingi

Salurinn var þéttskipaður á fjölsóttu Skátaþingi

Skátastarf virðir kynhneigð, trú og skoðanir

„Skátar vinna markvisst gegn hvers kyns mismunun!“ segir í niðurlagi yfirlýsingar skátaþings um mannréttindi. Þar eru áréttuð ákvæði í lögum BÍS: „Mannréttindi eru almenn, óafsalanleg, ódeilanleg og háð innbyrðis. Samkvæmt 8. grein laga
Bandalags íslenskra skáta skal skátastarf miðast við þarfir allra einstaklinga að svo miklu leyti sem aðstæður hvers skátafélags leyfa. Þar segir jafnframt að „Bandalag íslenskra skáta virðir sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýliða skal virða og engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna“. Þetta er jafnframt í samræmi við lög alþjóðahreyfinga skáta og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en gengur í raun skrefinu lengra þar sem kynhneigð er sérstaklega bætt inn í upptalninguna í lögum BÍS.

Skátaþing ályktaði einnig um frið og í niðurlagi þeirrar ályktunar segir: „Bandalag íslenskra skáta hvetur því alla skáta til að hafa ávallt sameiginleg gildi skátahreyfingarinnar hugföst og vinna markvisst að því að stuðla að friðsamlegri lausn ágreiningsmála. Skátahreyfingin hvetur alla til að taka virkan þátt í samræðu um frið og rétta fram hjálparhönd til þeirra sem á þurfa að halda sökum hvers kyns hamfara eða stríðsátaka.
Saman sköpum við betri heim!“

Yfirlýsingarnar í heild má lesa í hinu Græna skýi þingsins þar sem öll gögn voru vistuð – Yfirlýsingar Bandalags íslenskra skáta um frið og mannréttindi

Ungmennaráð var kosið í fyrsta sinn

Ungmennaráð var kosið í fyrsta sinn

Mannréttindabrot gagnrýnt

Nýlega tóku gildi lög í Úganda sem brjóta alvarlega á réttindum hinsegin fólks. Á skátaþingi var samþykkt ályktun sem fordæmir það ofbeldi og þau mannréttindabrot sem af þeim stafa. „Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, transfólk og allir þeir sem eru á einhvern hátt „hinsegin“ í skilningi laganna eru gerðir að annars flokks borgurum og eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi, pyntingar, opinbera niðurlægingu og þurfa stöðugt að óttast um líf sitt,“ segir þar.

Það er átalið sérstaklega að einn af flutningsmönnum lagafrumvarpsins þingmaðurinn David Bahati er stjórnarformaður Bandalags skáta í Úganda.

„Lagasetning þessi er ekki bara alvarlegt brot á mannréttindum, heldur er hún í hrópandi þversögn við gildi og markmið skátahreyfingarinnar, stærstu friðarhreyfingar í heimi. Bandalag íslenskra skáta hvetur ríkisstjórn og forseta Úganda til þess að skipta um skoðun og lýsir yfir miklum vonbrigðum með þátt hátt settra skáta í harmleiknum sem á sér stað þar í landi. Ennfremur hvetur bandalagið skáta um allan heim til þess að breiða út víðsýni og umburðarlyndi gagnvart því fjölbreytta mannkyni sem prýðir þessa jörð,“ segir í niðurlagi ályktunarinnar og með henni er stjórn BÍS falið að gera stjórn alþjóðahreyfingar skáta (WOSM) og stjórn skátabandalagsins í Úganda grein fyrir efni
ályktunarinnar.

Aðgengi barna og ungmenna að landinu

Á Skátaþingi kom fram áskorun um að tryggja aðgengi barna og ungmenna að landinu og veita þeim frjálsa för um landið okkar. Áskorunin var samþykkt.

 

Heitur umræðupottur

Heiti potturinn var yfirskrift opinnar umræðu sem fram fór í hópum. Þeir fengu ákveðinn tíma og þá var skipt um hópa og umræðuefni. Umræðuefnið tók mið af óskum þátttakenda og segir því til um um það sem skátaforingjum skátafélaganna er efst í huga:

• Börn af erlendum uppruna
• Hættum að ganga í skrúðgöngu
• Forsetamerkið + Rekkaskátastarf
• Fánakveðja skáta
• Notkun skátabúnings
• Róverstarf – nýr starfsgrunnur
• Áfengi v.s. skátar
• Hlutverk fullorðinna í skátastarfi
• Fjáraflanir – hugmyndabanki
• Hvatakerfi
• World Scout Moot 2017
• Ævintýri/sögusvið – hvernig gerum við skátastarf skemmtilegt

Nýtt myndband og kynningar

Rödd ungra skáta, sem er áhugasamur vinnuhópur um þátttöku yngri skáta í ákvörðunum, frumsýndi nýtt myndband. Hugmyndin í myndinni er að sýna fram að ungt fólk hefur rödd og skynsemi til að gera starfið markvissara og auðveldara fyrir okkur öll.

Guðmundur Finnbogason kynnti stöðu mála á Úlfljótsvatni. Mikil uppbygging á sér stað og hugur í mönnum fyrir komandi sumar. Mikið af sjálfboðaliðum kemur til með að létta undir starfseminni í sumar og sú nýjung að hverja helgi verður boðið uppá flotta dagskrá. Auðvelda á skátum að mæta á Úlfljótsvatn og taka þátt í því flotta dagskrárframboði sem er þar.

Fríður Finna mótsstjóri Landsmóts skáta kynnti stöðuna varðandi mótið. 5% fjölgun er á þátttöku á milli móta og fengu allir þinggestir smjörþefinn af þeirri flottu dagskrá sem í boði verður.

Hrönn Pétursdóttir kynnti world scout moot 2017 og stöðu undirbúnings.

 

Skátamál munu næstu daga flytja fleiri fréttir af Skátaþingi.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar