Magnað hvernig skátastarfið tengir okkur saman

Forsetamerkið er afhent í dag og okkur hjá Skátamálum lék hugur á að vita hvaða vinna liggur að baki því að hjóta þessa viðurkenningu, sem forseti Íslands afhendir að Bessastöðum.

Védís Helgadóttir er í hópi 22 skáta sem veita merkinu viðtöku í dag.  Hún er í rekkaskátasveitinni Atlantis í Ægisbúum og þar hefur verið mjög öflugt starf.

Við erum alltaf að skora á sjálf okkur

Forsetamerkið er starfsmerki og skátarnir sækja um og skila inn lýsingu sinni í dagbókarformi. Védís átti því ekki í nokkrum vandræðum með að svara þeirri spurningu hvaða vinna liggur að baki því að fá viðurkenninguna.

Á Landsmóti skáta sumarið 2014. Védís önnur frá hægri.

Á Landsmóti skáta sumarið 2014. Védís önnur frá hægri.

„Ég hef verið í virku rekkaskátastarfi síðastliðin tvö ár þar sem ég hef reglulega mætt á skátafundi, farið í útilegur og á skátamót. Þegar ég vann að Forsetamerkinu tók ég eftir því hvað ég hef lært af skátastarfinu og hvað það hefur gefið mér mikið. Ég hef fengið tækifæri til þess að rækta hæfileika mína og eignast nýja vini en það er helst í útilegum og á skátamótum sem maður kynnist öðrum skátum. Það er gott að eignast nýja vini í gegnum skátastarfið því skátar eru jafn mismunandi og þeir eru margir en þó er það svo magnað hvernig skátastarfið tengir okkur öll saman! Mér hefur alltaf fundist skátasamfélagið svo heillandi og það að vinna að Forsetamerkinu hefur aukið þá tilfinningu margfalt,“ segir Védís.

„Þegar ég vann að Forsetamerkinu komst ég líka að því að í skátunum erum við alltaf að skora á sjálf okkur. Við erum oft að prófa eitthvað nýtt, til dæmis að klifra og síga, svo dæmi sé tekið, og þá erum við svo sannarlega að skora á sjálf okkur. Hver og einn skáti ætti að vera duglegur að setja sér persónuleg markmið og skora á sjálfan sig. Það hefur því verið þroskandi og skemmtilegt fyrir mig að vinna að Forsetamerkinu því ég hef áttað mig á því hvað skátastarfið er í raun og veru,“ bætir hún við.

Dagbókin er skemmtilegt safn minninga

Við fengum Védísi til að lýsa sinni vinnu:  „Þegar ég hafði skrifað niður það sem ég hafði tekið mér fyrir hendur á rekkaskátaárunum lýsti ég útilegunum og skátamótunum í máli og myndum í dagbók. Hver viðburður átti sína blaðsíðu þar sem ég skrifaði um upplifun mína og lýsti með ljósmyndum og teiknuðum myndum. Skátaflokkurinn minn, Rs. Atlantis í Ægisbúum, hefur líka haldið úti Youtube rás þar sem við höfum deilt myndböndum úr ferðum og af skátamótum. Í dagbókinni benti ég á Youtube rásina. Gerð dagbókarinnar rifjaði upp fyrir mér öll ævintýrin sem við í skátasveitinni höfum lent í. Dagbókin er skemmtilegt safn minninga sem maður getur síðar meir alltaf flett upp í og skoðað. Mér þótti gaman að lýsa því hvernig ég upplifi skátastarfið og vinnan að baki Forsetamerkisins hvetur mig enn frekar til þess að halda áfram að stunda skátastarfið,“ segir Védís.

Svalt að vera með eigin útvarpsþátt

En hvað er Védísi eftirminnilegast úr skátastarfinu.  „Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um það hvað mér hafi fundist eftirminnilegt úr skátastarfinu enda starfið svo fjölbreytt og skemmtilegt. Landsmót skáta á Hömrum sumarið 2014 var mjög skemmtilegt en þá fórum við í Rs. Atlantis á kajak og vorum í okkar eigin útvarpsþætti í landsmótsútvarpinu. Það fannst okkur einstaklega svalt,“ segir Védís.

„Þegar maður ver heilli viku á skátamóti eins og Landsmóti skáta er maður með vinum sínum úr skátaflokknum allan sólarhringinn og við í Rs. Atlantis styrktum vinaböndin mikið á þessu Landsmóti. Aðra góða og eftirminnilega minningu á ég frá Vetrarmóti Reykjavíkurskáta á Úlfljótsvatni í janúar 2015. Þá sváfum við í tjaldi þegar snjór var yfir öllu. Rekkaskátarnir á mótinu fóru í gönguferð meðfram Úlfljótsvatni og svo elduðum við hádegismat úti. Sunnudaginn byrjuðum við fjórar stúlkur daginn á því að fanga og hleypa út mús sem var forvitin um nývaknaða skáta. Það má segja að það hafi verið mjög hressandi og eftirminnilegur morgunn“.

Við óskum Védísi og öðrum sem tóku við Forsetamerkinu í dag til hamingju. Í hópnum sem tekur við merkinu í dag eru:

 • Hulda María Valgeirsdóttir, Ægisbúar
 • Védís Helgadóttir, Ægisbúar
 • Aníta Ósk Guðnadóttir, Eilífsbúar
 • Katrín Lilja Pétursdóttir, Kópar
 • Edda Anika Einarsdóttir, Hamar
 • Erika Eik Bjarkadóttir, Hamar
 • Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, Skjöldungar
 • Sæbjörg Einarsdóttir, Svanir
 • Erla Björk Kristjánsdóttir, Skátafélag Akraness
 • Hafdís Ósk Jónsdóttir, Skátafélag Akraness
 • Hrönn Óskarsdóttir, Skátafélag Akraness
 • Halldóra Aðalheiður Ólafsdóttir, Skátafélag Borgarness
 • Eiríkur Egill Gíslason, Vífill
 • Erik Hafþór Pálsson Hillers, Vífill
 • Eva Lára Einarsdóttir, Vífill
 • Hilmar Már Gunnlaugsson, Vífill
 • Hjalti Rafn Sveinsson, Vífill
 • Kristín Helga Sigurðardóttir, Vífill
 • Kristófer Lúðvíksson, Vífill
 • Sigurður Pétur Markússon, Vífill
 • Snorri Magnús Elefsen, Vífill og Mosverjar
 • Stefán Gunnarsson, Vífill

 

Tengd frétt:

Forsetamerki í fimmtíu ár

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar