Magakveisa á Úlfljótsvatni

Magakveisa hefur herjað á erlenda skáta sem hafa dvalið í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni undanfarna daga. Alls hafa komið upp á sjötta tug tilfella. Orsakir eru ókunnar. Bandalag íslenskra skáta leitaði fyrr í dag til heilbrigðisyfirvalda um aðstoð. Nokkur sambærileg tilfelli komu upp á alþjóðlega skátamótinu sem lauk í síðustu viku á Úlfljótsvatni en þau tilvik voru einangruð og magakveisan gekk yfir á skömmum tíma. Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta  segir að málið sé tekið mjög alvarlega og að erlendu skátarnir hafa fengið alla nauðsynlega þjónustu. Hann segir að þegar hafi verið haft samband við heilbrigðisyfirvöld og hafa viðbragðsaðilar brugðist vel við. Heilbrigðisstofnun Suðurlands stýra aðgerðum, læknar og sjúkraflutningamenn voru sendir á Úlfljótsvatn til að meta aðstæður. Sett var upp fjöldahjálparstöð í grunnskólanum í Hveragerði, í samráði við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Rauða krossinn og aðra viðbragðsaðila. Haft var samband við sérfræðing í smitsjúkdómum hjá Landspítalanum.  Í kjölfarið af því er verið að senda 170 erlenda skáta í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði í varúðarskyni og þar sem þeir veiku fá þá viðeigandi aðstoð. Tilfellin sem komu upp á nýafstaðna skátamótinu gengu fljótt yfir og segir Hermann vonast til að svo verði  einnig með þessi  nýju tilfelli.  Skátarnir dvelja í fjöldahjálparstöðinni eitthvað fram eftir degi á morgun undir eftirliti þannig að sé tryggt að allir hvílist og nærist vel.

Framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir að engar skýringar séu að fá á þessum tímapunkti hvort sé að ræða sýkingu út frá matvælum eða venjulega magapest. Óskað hefur verið eftir úttekt hjá heilbrigðiseftirliti Suðurlands og læknum um að finna skýringar á þessum kvilla og með því er hægt að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Hermann segir að þetta sé leiðinlegt atvik sem Bandalag íslenskra skáta líti alvarlegum augum. ,,Vonandi gengur þessi magakveisa yfir sem fyrst og það finnist skýring á þessum kvilla þannig að hægt sé að koma í veg fyrir að tilfellin verði fleiri“. Hann segir að þetta sé mjög mikilvægt að skýring finnist sem fyrst þar sem von er á fleiri erlendum skátum sem vænta þess að upplifa góða tíma á Úlfljótsvatni.

Stjórn Bandalags íslenskra skáta vill koma á framfæri þökkum til allra viðbragðsaðila fyrir snögg viðbrögð og góða þjónustu.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar