Lifðu fjallarokið af

„Dóum næstum því í rokinu á Mount Úlfarsfelli, en allt var það þess virði!“ segir í einni  færslu á Facebook-síðu þátttakenda í Ævintýrakeppninni Hrolli sem haldin var um liðna helgi á Stór-Hafravatnssvæðinu. Skátafélagið Mosverjar sem hafa um áraraðir staðið að þessari keppni og láta þar reyna á þol og hæfni dróttskáta í að bjarga sér við erfiðar aðstæður í  glettingslegu marsveðri.

Til að tryggja góðan hroll í upphafi helgarinnar var safnast saman við strætóskýlið við Hafravatsafleggjarann í Mosfellsbæ klukkan sex á föstudagskvöldi. Ekki beið þó strætó eftir þeim heldur þurftu liðin að ganga upp að skátaskálanum Hleiðru með allan sinn búnað á bakinu. Til að tryggja að engum leiddist var strax um kvöldið verkefni að skipuleggja göngu laugardagsins.

Hrollur frá felli til fjöru

Ræst var eldsnemma á laugardegi, en ráshliðið  opnaði kl. 06:30. (Þetta er ekki ritvilla – Það er bara ekki alveg í lagi með þetta lið).

Öll keppnisliðin þurftu að fylgja ferðaáætlun sinni nákvæmlega og voru póstarnir dreifðir allt frá toppi Úlfarsfells niður í fjöru Hafravatns. Mismörg stig voru gefin fyrir hvern póst þannig að útsjónarsemi þurfti til að skipuleggja ferðina þannig að sem flest stig næðust á tilætluðum tíma. Rásmarkinu var svo lokað kl 16:30 á laugardeginum. Skemmst er frá því að segja að öll lið skiluðu sér aftur í skálann á réttum tíma. Að vísu misblaut og svöng, en allir kátir og glaðir.

Þau lið sem sváfu í tjaldi eða snjóhúsi fengu aukastig og það er ekki að því að spyrja –  öll liðin sváfu í tjöldum báðar næturnar.

Vinningsliðið í ár var skipað Atla Frey Gylfasyni, Ísaki Árna Eiríkssyni og Andreu Dagbjörtu Pálsdóttur.  Skátamál óska þessum harðjöxlum til hamingju með titilinn.

Bara fyrir þá sem þora

Keppendur voru dróttskátar, sem eru á aldrinum 13 – 15. Þeir sem þora að kynna sér starf þessa aldursstigs fá upplýsingar á skátarnir >>> >  skatarnir.is/13-15-ara/

Sjá einnig nánar um Hroll í nýlegri frétt þegar við rifjuðum upp hetjudáðir fyrri ára >>>  http://skatamal.is/reynir-a-radsnilld-og-thol

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar