Leiðtogþjálfun laðar nýtt fólk í skátana

„Við viljum opna hreyfinguna fyrir fjölbreyttum hópi fólks, bæði gömlum skátum en ekki síður fólki sem ekki voru skátar sem börn eða unglingar. Við viljum kveða niður goðsögnina um að þeir sem taka að sér leiðtogahlutverk í skátahreyfingunni þurfi nauðsynlega að hafa verið skátar frá barnsaldri,“ segir Ólafur Proppé formaður fræðsluráðs í stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS).
Ólafur Proppé fv. rektor Kennaraháskólans leiðir starf Gilwell-skólans

Ólafur Proppé fv. rektor Kennaraháskólans leiðir starf Gilwell-skólans

Hann segir nauðsynlegt að fjölga verulega fullorðnum sjálfboðaliðum bæði hjá skátafélögunum og BÍS. Til að laða að nýtt fólk og gefa því veganesti inn í starfið sé leiðtogaþjálfun fullorðinna meginatriði.

Á Landsmóti skáta á Akureyri verða tvær kynningar um Gilwell-leiðtogaþjálfun og sjálfboðastarf fullorðinna. Boðið er til kaffikynninga á fimmtudag og föstudag klukkan 14 – 15:30 á Hlöðuloftinu á Landsmótssvæðinu að Hömrum.

Allir eru velkomnir og segir Ólafur segir að með því að halda kynningar í tengslum við Landsmót sé verið að auðvelda fullorðnum einstaklingum á staðnum að sækja þær. Ekki er síst verið að hugsa um þá sem eru í fjölskyldubúðunum og eru í tengslum við skátafélögin.

„Við viljum kveikja áhuga fullorðinna á mikilvægu hlutverki skátahreyfingarinnar sem uppeldishreyfingar og opna hreyfinguna fyrir fjölbreyttum hópi fólks“, segir Ólafur. Hann bætir við að með því að fá fleiri fullorðna til liðs og hlúa að þekkingu þeirra og samvinnu sé forsenda fyrir fjölgun skáta á skátaaldri, þ.e. frá 7 – 22 ára og auknum gæðum í skátastarfi.

Kaffikynningin tekur hálfan annan tíma og farið verður vítt um sviðið. Haldið er utan um leiðtogaþjálfunina innan Gilwell-skólans, sem á sér alþjóðlegar rætur eins og nafnið gefur til kynna, en á síðastliðin ár hefur íslenska dagskráin verið endurskoðuð frá grunni. „Við munum kynna Gilwell-skólann og þátt hans í sveigjanlegri og faglegri leiðtogaþjálfun fullorðinna. Við munum kynna breytta Gilwell-leiðtogaþjálfun og Gilwell-framhaldsþjálfun. Þá munum við kynna möguleika reyndra skáta á að taka þátt í Gilwell-teyminu og að verða þannig áhrifavaldar og þátttakendur í eflingu skátastarfs til góðs fyrir fjölmarga einstaklinga og samfélagið allt,“ segir Ólafur að lokum.

Tengt efni:

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar