Leiðtogavítamín – nýju foringjanámskeiðin vinsæl

„Allir skemmtu sér ótrúlega vel í fyrra á Leiðtogavítamíni“, sagði Gísli Örn Bragason einn stjórnenda Leiðtogavítamíns sem fyrirhugað er að halda helgina 3. – 5. október, á Úlfljótsvatni. „Jafnvel þó að það hafi verið mígandi rigning og hávaðarok“. Gísli vísar þarna til aftakaveðurs sem virðist í minningunni aðeins hafa gert námskeiðið að enn meira ævintýri, enda eitt af markmiðum skátaaðferðarinnar að læra að bjarga sér í náttúrunni. „Krakkarnir komu úr mörgum félögum og það var sannarlega mikið fjör og margir að kynnast nýjum vinum og jafnöldrum úr öðrum félögum“.

Leiðtogavítamín er skemmtilegt og krefjandi útilífs og leiðtogaþjálfunarhelgarnámskeið í anda gömlu flokksforingjanámskeiðanna sem margir skátar yngri sem eldri hafa skemmtilegar minningar um. Meginmarkmið með námskeiðinu er að skátar læri að vinna eftir Skátaaðferðinni, bæði sem þátttakendur og sem mögulegir foringjar.

Tvö leiðtogavítamínsnámskeið eru rekin á sama stað og sama tíma, annað fyrir dróttskáta og hitt fyrir rekkaskáta. „Skráning er komin á fullt og í fyrra komust eiginlega færri að en vildu“ segir Gísli um leið og hann hvetur skátafélög til að bregðast skjótt við og láta ekki þennan vinsæla viðburð fara fram hjá drótt- og rekkaskátunum sínum.

Það bíða því spennandi ævintýri handan hornsins fyrir drótt – og rekkaskáta sem ætla að drífa sig á Leiðtogavítamín.

Frekari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér::

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar