Landsmót skáta hefst á sunnudag

Landsmót Skáta verður sett  á sunnudagskvöld að Hömrum við Akureyri. Um er að ræða alþjóðlegt skátamót sem mun standa fram til 27. júlí.  Þema mótsins í ár er „Í takt við tímann” og verður boðið upp á hefðbundna landsmótsdagskrá með nýjum áherslum til að tengja við þema mótsins og staðhætti að Hömrum.

Mikið er lagt upp úr því að hafa dagskrána sem fjölbreyttasta og að allir finni sér eitthvað við hæfi. Vinsælustu dagskrárliðirnir eru klifur og sig, bogfimi, minecraft tölvuleikur, hið óvenjulega sófarötunar verkefni, MakeyMakey tæknin og svo auðvitað útivistin. Þátttakendum hafa sjálfir valið sína dagskrá og reyna verkefnin bæði á samvinnu flokksins sem og hugmyndaflug, hæfni og reynslu hvers þátttakanda.

Að venju verða starfræktar sérstakar fjölskyldubúðir og eru þær stór hluti af landsmótinu. Þar geta allir sem að vilja komið og notið útivistarinnar, samverunnar og um leið tekið þátt í landsmótsævintýrinu. Gestir fjölskyldubúða geta tekið þátt að hluta í almennri dagskrá landsmótsins, til dæmis opinni dagskrá í þrauta- og metalandi, friðarþorpinu og Listaspírunni. Einnig verður sérstök dagskrá í boði í fjölskyldubúðunu og þar má nefna skipulagðar gönguferðir, eldun á hlóðum og barnakvöldvökur. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í fjölskyldubúðir og hægt er að dvelja þar þann tíma sem hentar hverjum og einum.

Búist er við að  6 – 8.000 manns verði á mótssvæðinu þegar mest verður, en þátttakendur eru um 2.000. Um 600 erlendir þátttakendur koma á mótið, flestir þeirra frá Finnlandi og Bretlandi, en þeir sem koma lengst að, koma alla leið frá Hong Kong og Ástralíu!

Bandalag íslenskra skáta (BÍS) stendur að mótinu.  Allar nánari upplýsingar eru heimasíðu mótsins www.skatamot.is

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar