Náttúrulega, Landsmót Rekka og Róverskáta fór fram 9.-15.júlí síðastliðinn.

44 skátar byrjuðu mótið á því að ganga Laugarveginn á þremur dögum. Fyrsta daginn var gengið frá Landmannalaugum, í gegnum Hrafntinnusker og í Álftavatn þar sem var tjaldað. Næsta dag var gengið í Emstur og síðasta daginn var gengið í Þórsmörk inn í Bása á Goðalandi. Gangan var krefjandi fyrir hópinn en gleðin og krafturinn skein í gegn. Veður varð með besta móti og varla vart við rigningu eða rok.

Í Básum bættust við 20 íslenskir og 15 danskir skátar til viðbótar. Þá hófst þriggja nátta mót í Básum og nánast umhverfi. Þar að auki komu ýmsir eldri skátar í heimsókn á meðan móti stóð og má ætla að allt að 100 skátar hafi verið á svæðinu þegar mest var.

Skátarnir sem tóku þátt fengu að kynnast flokkakerfinu að eigin raun með því að mynda flokka sem skipt var í tvær sveitir sem hvor fékk sína aðstöðu til eldamennsku. Flokkarnir tóku síðan þátt í dagskrá.  Til upplýsinga um dagskrá og önnur mikilvæg atriði voru haldnir sveitarráðsfundir.
Dagskrá var fjölbreytt og stóð saman af opnum dagskráliðum svo sem lengri og styttri göngum, sigi úr Álfakirkjunni, fræðslu og smiðjum í tjaldbúð. Lögð var áhersla á afslappað umhverfi þar sem hver flokkur valdi sér áskorun sem hentaði.

Ýmsar uppákomur voru á mótinu svo sem föstudagsfjör, stuð-stund Benna, kvöldvaka þar sem gestum og gangandi í Básum var boðið að taka þátt í almennilegri skátakvöldvöku og heilmikil gleði og glaumur.

Hálfur dagur var helgaður samfélagsvinnu. Skátarnir tóku höndum saman og aðstoðuðu Skógræktina í Þórsmörk og Útivist með verkefni á svæðinu. Hópur skáta fór langt upp fyrir Kattahryggi, um hálfa leið upp á Fimmvörðuháls, með fræ og áburð í fötum til að dreifa í kanta gönguleiðarinnar. Stærsti hópurinn tók að sér að bera 20 metra löng og 28 kg plaströr upp í gil fyrir ofan Bása þar sem Útivist er að reisa aðfallsrás í litla virkjun til þess að framleiða rafmagn fyrir aðstöðuna á svæðinu. Labba þurfti með rörin talsverða vegalengd og voru 2-3 skátar um hvert rör. Flutt voru hátt í 70 rör sem voru samtals um 2 tonn að þyngd. Síðasti hópurinn undirbjó birkigræðlinga sem gróðursettir verða í Þórsmörk þar sem aðstoða þarf gróður við að ná sér á strik. Þátttakendur voru ánægðir með að fá að leggja hönd á plóg og skildu sáttir við dagsverkið.
Það skiptust á skin og skúrir í Mörkinni en þessi frábæri hópur skáta naut lífsins í botn allan tímann hvort sem það var pollagalla- eða stuttbuxnaveður. Þátttakendur eru margir hverjir foringjar eða verðandi foringjar í skátafélögum landsins. Það er auðvelt að sjá af lífsgleði, elju og krafti þátttakenda að framtíðin er björt.

[Myndaalbúm]