„Næstu þrjá mánuði mun mikilvægasti þáttur vinnunnar fara fram og við viljum gefa öllum skátum kost á að fylgjast með og taka þátt,“ segir Jón Þór Gunnarsson, en hann leiðir vinnu nefndar sem skipuð var á síðasta skátþingi til gera umsögn um ný lög fyrir Bandalag íslenskra skáta sem þá voru lögð fram.
Og ertu þá sammála því?
Og ertu þá sammála því?

Á laugardag er vissum áfanga í vinnu nefndarinnar náð og boðar hún af því tilefni til opins fundar í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ kl. 9 – 12. Boðið verður upp á hádegisverð að fundi loknum.

Mikilvægar breytingar sem varða alla skáta

Jón Þór segir að allir skátar ættu að láta sig þessa vinnu varða þar sem grundvallarþættir í starfi og stefnu BÍS séu til umfjöllunar, s.s. grunngildi skátastarfs,  aðild að BÍS, og uppbygging stjórnar og ráða. Að minnsta kosti tveir opnir fundir verða haldnir og sá fyrri verður nú á laugardag.

Hann segir að nefndin hafi haft opið og gagnsætt ferli að leiðarljósi. Frétt um störf nefndarinnar hafa áður birst og áhugasamir voru þar hvattir til að hafa samband.  Í samræmi við tillöguna á skátaþingi var kallað eftir þátttöku frá öllum skátafélögum  og tekur um helmingur þeirra þátt.

Skýrt og skeleggt plagg
Skýrt og skeleggt plagg sem vert er að skoða

Skýr umsögn um lagafrumvarpið í samanburði við núgildandi lög

Tillagan sem fram kom á síðasta skátaþingi gerði ráð fyrir að nefndin skilaði umsögn til stjórnar BÍS eigi síðar en 31. október 2014. Þær myndu síðan kynntar félagsforingjum á fyrsta félagsforingjafundi árið 2015.

Nefndin hefur unnið umsögn um frumvarpið sem stjórn lagði fram á síðasta skátaþingi og borið saman við núgildandi lög með ákaflega aðgengilegum og skýrum hætti. Umsögnin er aðgengileg hér á vef skátamála:  Lög BÍS 2013 ásamt Lagafrumvarpi 2014 – með athugasemdum milliþinganefndar.

Fjórir áhersluþættir í lagasmíðunum

Nefndin hefur haldið 9 ritaða fundi auk samskipta í gegnum tölvupóst. Nefndin ákvað á fyrsta fundi sínum að skipta vinnunni í tvo áfanga.  Auk þess að gefa umsögn um lagafrumvarpið sem fram kom á skátaþingi ákvað nefndin að móta eigin tillögur um hvaða lagabreytingar skuli leggja til á næsta skátaþingi.

Þeir þættir sem nefndin hefur ákveðið að skoða sérstaklega og beina umræðunni að eru:

  • Aðild að BÍS. Hér var markmið stjórnar að auðvelda sjálfboðaliðum aðild að skátafélögum og BÍS, sem og að efla tengsl fullorðinna skáta.
  • Afmörkun grundvallarþátta í lögum BÍS. Nefndin telur rétt að í lögum verði grundvallarþættir svo sem skátaheiti, skátalög og grunngildi, afmarkaðir sem „fasti“ í starfi skáta.  Aðrir almennir þættir snúast meira um almenna starfsemi og umgjörð félagsstarfs.
  • Stjórn og Ráð. Stjórn BÍS lagði til breytingar á stjórn og stjórnkerfi BÍS til að tryggja betur framgang hinna fjölmörgu verkefna sem samtökin sinna.
  • Grunngildi BÍS.  Stjórn BÍS vill gera betur grein fyrir grunngildum skátahreyfingar­innar og gæta samræmis við alþjóðasamtökin (sbr. „Constitution“ WOSM og WAGGGS). Hér má einnig sjá kafla í ritinu Kjarni skátastarfs.

Gera má ráð fyrir lifandi umræðum um þessa þætti á laugardag.

 Vefsíða með helstu gögnum og ábendingagátt

Nefndin opnaði vefsíðu þar sem nálgast má helstu gögn og upplýsingar um vinnuferlið. Þar gefst skátum einnig kostur á að senda inn ábendingar. Slóðin er   lagabreyting.skatamal.is  og þar eru nú aðgengileg:

  • Umsögn nefndarinnar
  • núgildandi lög,
  • lagafrumvarp stjórnar,
  • athugasemdir nefndarinnar og
  • ábendingagátt fyrir skáta.

Opna vefsíðu:  lagabreyting.skatamal.is