Lærðu að taka ákvarðanir og hafa áhrif

Hvernig á stór hópur að komast að sameiginlegri niðurstöðu, þannig að allir séu sáttir? Hvernig getur maður ráðið meiru um það hvenær maður tekur til í herberginu sínu? Við hvern á að kvarta ef maturinn í skólanum er vondur? Hvernig semur maður reglur og lög fyrir nýtt land?
Ákvörðunartaka

Ákvörðunartaka

Þetta eru aðeins nokkrar af þeim spurningum sem 33 dróttskátar glímdu við á námskeiðinu Á norðurslóð sem haldið var á Úlfljótsvatni milli jóla og nýárs. Þema námskeiðsins var „Þú ræður“ og fjallaði um hvernig ungt fólk getur haft meiri áhrif á sitt eigið líf.

Það má reyndar segja að námskeiðið hafi farið hálf brösulega af stað, því rútan með þátttakendurna kom að þar sem bíll hafði farið út af veginum vegna hálku og bílstjórinn taldi ekki óhætt að fara lengra. Þátttakendur þurftu því að ganga síðasta kílómetrann, sem þeir töldu ekki eftir sér.

Tóku sameiginlega ákvörðun

Strax á fyrsta kvöldi var svo farið í fræðslu og umræður, en aðalverkefni námskeiðsins snerist um að hópurinn tæki sameiginlega ákvörðun um kvölddagskrána á laugardagskvöldinu. Til þess var notuð blanda af aðferðum og allir þátttakendur komu með hugmyndir og tóku svo þátt í kosningaferli sem leiddi til endanlegrar niðurstöðu.

Að endingu varð dagskráin blanda af bogfimi, kvöldvöku, bíóglápi og „chilli“ og mæltist að sjálfsögðu vel fyrir hjá þátttakendum, enda ákváðu þeir hana sjálfir.

Til viðbótar við fyrrnefnd viðfangsefni var á dagskrá kynning á Erasmus+ styrkjaáætluninni og öllu því sem hún hefur upp á að bjóða. Skemmst er frá því að segja að þátttakendur voru mjög spenntir fyrir ungmennaskiptum og EVS sjálfboðaliðastarfi og bjuggu til margar frábærar hugmyndir að verkefnum sem þeir halda vonandi áfram að vinna í og sækja um styrk fyrir.

Hlutverkaleikur

Hlutverkaleikur

Aukin þekking sem mun nýtast

Í lok námskeiðs var gert ítarlegt endurmat þar sem meðal annars kom í ljós að þátttakendur töldu sig hafa aukið þekkingu sína á einstökum viðfangsefnum námskeiðsins um 9-33%. Þá töldu 75,9% þátttakenda að þeir myndu nýta lærdóm af námskeiðinu síðar meir.

Eitt verkefnið á námskeiðinu var að semja gildi og reglur fyrir nýstofnað ríki. Fram komu margar góðar hugmyndir, sumar hverjar heldur óhefðbundnar. Þannig máttti enginn í ríkinu Miðlandi deyja, í ríkinu Úlfljótslandi mun forsetaembættið vera í höndunum á Klingenberg-ættinni (en einn meðlimur hennar var á námskeiðinu) og í ríkinu Tindpo F.L.Ú. verða þegnar að hafa pizzu á borðum á miðvikudögum, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þar mun líka heyrast klukknahljómur á klukkutíma fresti yfir daginn, og mun hann leysa allar aðrar klukkur af hólmi.

Námskeiðið var skipulagt og haldið af Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni en Sólveig Rós Másdóttir, fyrrum Landnemi, var einnig í skipulags- og leiðbeinendateyminu. Fjöldi rekka- og róverskáta aðstoðaði við námskeiðið, bæði með fyrirlestrum, eldamennsku og öðrum störfum sem til féllu.

Glæsilegur hópur þátttakenda

Glæsilegur hópur þátttakenda

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar