Kraftmikið óformlegt nám

Starfsmenn Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni hafa í vetur nýtt sér upplifun og þekkingu af námskeiði fyrir leiðtoga í æskulýðsstarfi um óformlegt nám sem haldið var í  Lidköping í Svíþjóð dagana 17.-23. nóvember.  Guðmundur Finnbogason, framkvæmdastjóri og Elín Esther Magnúsdóttir, dagskrárstjóri  sóttu námskeiðið og hrifust þau mjög af aðferðinni sem þar var kennd.
Elín segir að áhrifa af námskeiðinu muni gæta í dagskránni á Úlfljótsvatni. Hér er hún á tali við tvo kollega á námskeiðinu.

Elín segir að áhrifa af námskeiðinu muni gæta í dagskránni á Úlfljótsvatni. Hér er hún á tali við tvo kollega á námskeiðinu.

„Strax í lestinni, á leiðinni frá Lidköping, vorum við farin að teikna upp nýjungar í starfi Útilífsmiðstöðvarinnar, þar sem við nýtum þekkingu af námskeiðinu. Við munum til dæmis endurskoða einstaka dagskrárliði í skólabúðum og sumarbúðum með það að leiðarljósi að auka menntunargildi þeirra fyrir þátttakendur,“ segir Elín um afrakstur námskeiðsins.

„Fyrst og fremst var þetta gríðarlega áhugavert og fróðlegt námskeið. Við fjölluðum mikið um hvernig einstaklingar læra í óformlegu námi og hvernig er hægt að auka upplifun og dýpka skilning með góðum undirbúningi,“ segir Guðmundur. „Það þarf samt ekkert að búast við algjörri stefnubreytingu í starfi okkar, við erum bara að bæta í reynslubankann til að geta haldið áfram að þróa starfið og auka gæði þess.“

Þau prufukeyrðu þær aðferðir og tækni sem þau lærðu á viðuburðinum Á norðurslóð, sem haldinn var milli jóla og nýárs. Sjá fréttina  Lærðu að taka ákvarðanir og hafa áhrif.

SM-NFE1Sterkar tilfinningar og kraftmikið nám

Námskeiðið sem um ræðir heitir Power of Non Formal Education og hefur verið haldið reglulega í nokkur ár, víðsvegar um Evrópu.

„Námskeiðið er á vegum Erasmus+ áætlunarinnar og við fengum styrk hjá Evrópu unga fólksins fyrir förinni. Aðalleiðbeinendurnir, sem eru þrír, eru hver um sig hokinn af reynslu á þessu sviði og fyrir okkur sem eru vön að leiðbeina og stýra dagskrá var hrein unun að fylgjast með þeirri natni og hugsun sem var lögð í hvert einasta smáatriði á námskeiðinu. Það eitt og sér var mjög lærdómsríkt,“ segir Elín.

„Við fengum líka að reyna á eigin skinni hvað einfaldar æfingar og dagskrárliðir geta haft mikil áhrif á þátttakandann,“ bætir Guðmundur við. „Hvað er hægt að framkalla sterkar tilfinningar og vekja mikla umræðu, en líka hvernig er hægt að beina fólki að því að opna sjálft augun og draga lærdóm af því sem það er að gera. Eins og nafn námskeiðsins gefur til kynna lærðum við mikið um hversu kraftmikið óformlegt nám getur verið.“

Óformlegt hvað?

En hvað er óformlegt nám, og hvernig er það frábrugðið formlegu, eða hefðbundnu, námi?

„Óformlegt nám er dálítið víðtækt hugtak en í grunninn má segja að það sé skipulagt nám sem á sér stað utan hefðbundins skólakerfis,“ segir Guðmundur. „Skipulagt skátastarf er þannig gott dæmi um óformlegt nám, þó svo að það geti líka verið formlaust nám. Þá er átt við að fólk læri af daglegu lífi, án þess að um skipulagt nám sé að ræða.“

Námskeiðið var stíft og voru þátttakendur að frá morgni og fram á kvöld alla daga. „Við fengum eitt eftirmiðdegi til að skoða Lidköping, sem er býsna merkileg  30.000 manna borg við þriðja stærsta stöðuvatn Evrópu. Sænski gestgjafinn, hann Lennart, sér hins vegar um alþjóðlegt samstarf á vegum borgarinnar og skipulagði skemmtilega heimsókn fyrir okkur Íslendingana til skátafélagsins á staðnum þann dag, svo við eigum enn eftir að kynnast Lidköping,“ útskýrir Guðmundur að lokum.

Tengd frétt:  Lærðu að taka ákvarðanir og hafa áhrif. Góð þátttaka á námskeiðinu Á norðurslóð

Guðmundur í viðtali við sænskan blaðamann sem heimsótti námskeiðið.

Guðmundur í viðtali við sænskan blaðamann sem heimsótti námskeiðið.

 

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar