Jólin í júní á Drekaskátamóti

Um 200 drekaskátar frá 17 félögum fengu að upplifa jólin í júní á Úlfljótsvatni sl. laugardag þegar þeir tóku þátt í Drekaskátamóti – mót sem Bandalag íslenskra skáta heldur árlega fyrir drekaskáta allsstaðar að af landinu.

Mótið stóð í tvo daga, frá hádegi á laugardegi fram á seinni part sunnudags. Drekarnir tóku þátt í alls kyns skemmtilegri dagskrá svo sem að fara á báta, klifra í klifurturninum, poppa, grilla hækbrauð, fara í leiki og busla í vatnasafaríinu svo eitthvað sé nefnt. Á laugardagskvöldinu var hamborgaraveisla áður haldið var á kvöldvökuna í Friðarlautinni.

Á sunnudeginum var svo komið að stórleiknum mikla. Þar skiptu krakkarnir sér upp í lið og þurftu að leysa hinar ýmsu þrautir til að komast áfram á spilaborðinu svo þau gætu bjargað jólunum frá hinum illa Trölla. Limbó, jólasöngur, bottom sjú, blindraþraut, boðhlaupsmilla og „náðu fánanum“ er bara brot af þrautunum sem krakkarnir þurfu að leysa til að sigra.

Þá var komið að heimferð. Eftir viðburðaríka og blauta helgi héldu skátarnir heim á leið, margir hverjir að klára sína fyrstu útilegu, spenntir fyrir komandi skátastarfi í haust.

Við í mótsstjórn viljum þakka fyrir frábært drekaskátamót og hlökkum til að sjá enn fleiri á landsmóti drekaskáta að ári liðnu.

Myndir: Halldór Valberg

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar