Íslenskir ofurskátar til Frakklands

„Við erum sérstaklega spennt fyrir að fara með stóran hóp af ofurskátum til Frakklands,“  segja Marta Magnúsdóttir og Liljar Már Þorbjörnsson, en þau eru fararstjórar á Roverway næsta sumar.

20092044396_fd019003d3_bÞau segja að íslenski hópurinn  muni eflaust koma til með að gera eitthvað frábært áður en farið verður út og það byrjar með Roverwaykaffihúsakvöldi á þriðjudaginn þann 10. nóvember í skátaheimili Ægisbúa kl 20:00.  „Við hvetjum alla til að mæta,“ segja þau. „Við viljum benda á að báðir fararstjórar eru mikið landsbyggðarfólk og sá hópur verður hafður með í huga við alla skipulagningu“.

Góður undirbúningur hjá Frökkum

„Frakkarnir eru búnir að standa sig mjög vel í skipulagningu og stefnir allt í frábært mót. Síðan verður spennandi að sjá hvort allir taki réttar lestir í ferðum sínum innan Frakklands,“ segja þau glöð í bragði.

Roverway er þannig skipulagt að 50 skátar mynda saman fjölþjóðlegar sveitir og upplifa Frakkland, umhverfi og menningu, í 6 daga. Í hverri sveit eru að hámarki átta manns frá sama landinu. Skátasveitirnar eru valdar saman útfrá þeim áfangastöðum og þemum sem skátarnir velja. Sveitunum er skipt í flokka sem fara hver efir sinni áætlun.

Frakklandi hefur verið skipt upp í 7 hluta og í hverjum hluta er ein borg notuð sem upphafsstaður ferða. Borgirnar sem verða notaðar sem upphafsstaðir ferðanna eru; París, Marseille, Lyon, Lille, Strasbourg, Rennes og Toulouse. Ferðirnar verða fjölbreyttar því Frakkland býður upp á mjög margvíslegt landslag sem hægt er að nýta í útivist, Alpana, Miðjarðarhafið og endalausar ekrur. Hver ferð hefur svo ákveðið þema sem flokkurinn velur sér áður en haldið er út. 4 þemu verða í boði en þau eru: Umhverfi, friður, menning og samfélag.

19497269683_84960acc51_b

Að ferðinni lokinni safnast svo allar sveitir á Jambville sem er skátamiðstöð í útjaðri Parísar og þar heldur skátamótið áfram, sveitirnar halda áfram sínu sveitastarfi, að elda saman og slíkt en á svæðinu verða hátt í 5000 aðrir skátar svo það verður nóg um að vera.

22315674218_0131ca3e65_b

Fimm þúsund skátar taka þátt í Roverway

Roverway stendur uppúr í minningunni

„Roverway er rekka- og róverskátamót og fyrir þá sem þekkja ekki annan aldur er það náttúrulega langskemmtilegasti aldurinn,“ segja Marta og Liljar. „Það eru mörg alþjóðleg skátamót fyrir þennan aldur sem og stendur Roverway þar uppúr. Við hvetjum alla rekka- og róverskáta til að skrá sig og mæta til Frakklands næsta sumar. Þátttakendur verða að vera 16-22 ára á meðan á móti stendur, þeir sem eldri eru stendur til boða að vera starfsmenn á mótinu“.

„Skátar ættu ekki að láta þetta tækifæri framhjá sér fara því það er ekki á hverju ári sem svona vönduð rekka- og róverskátamót eru haldin og hver sá sem er til í ævintýri af þessari gerð munu líklega ekki sjá eftir því að vera með! Síðan er þetta auðvitað mjög góð upphitun fyrir World Scout Moot á Íslandi sem verður haldið árið 2017,“ segir Marta og talar þar af reynslu, en hún mætti  á framandi Roverway kynningu í Grundarfirði vorið 2009 og í kjölfarið á Roverway á Íslandi. „Síðan þá hafa komið óteljandi frábær tækifæri til að læra af og hafa gaman,“ segir hún.

Tengt efni

Skráning > Hverjir geta tekið þátt?

Almennir þátttakendur eru á aldrinum 16 til 22 ára (fæddir 3. ágúst 1994 til 3. ágúst 2000) en í starfsmannabúðir (IST) geta skráð sig allir þeir sem eru eldri (fæddir fyrri 3. ágúst 1994). Skráðu þig hér

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar