Ímynd okkar

imynd1Ímynd er skoðun fólks á einhverju, óháð því hvort það hefur rétt fyrir sér eða ekki. Fólk myndar sér skoðun og byggir hana á upplifun sinni eða þeim upplýsingum sem það fær. Við getum verið ósammála þessari skoðun, jafnvel talið hana ranga en hún er til af ástæðu og á því rétt á sér.

Ímynd hvers og eins á skátum og skátastarfi er þannig það fyrsta sem kemur upp í huga viðkomandi þegar hann heyrir eða les orðin skátar eða skátastarf.

Það er munur á því sem við köllum ímynd og sjálfsmynd. Ímyndin er sú skoðun sem fólk hefur á okkur en sjálfsmynd er sú skoðun sem við höfum á okkur sjálfum. Þannig er skoðunin út á við ímyndin en sjálfsmyndin innávið. – Þessu má ekki rugla saman.

Ímyndin (út á við)

Það er töluverður munur á því sem skátastarf raunverulega er og því sem margir halda að það sé. Þennan mun þarf að leiðrétta. Við þurfum að koma staðreyndunum betur til skila og gjarnan þannig að fólk sjái fjölbreytileikann, fá innsýn í allt starfið en ekki eingöngu þegar við marserum í skrúðgöngu eða stöndum heiðurssvörð.

Hvað gera skátar?

Hvað er það sem við gerum raunverulega? skátar eru yfirleitt venjulegir krakkar sem ærslast í allskyns leikjum og skemmtilegheitum. Á fundum er verið að spjalla, leysa verkefni, undirbúa ferðir og útilegur og læra allskyns hluti sem gagnast í lífinu. Öflugir vinahópar myndast sem hafa gaman að því að vera saman.

Lykilorðin eru: leikur, vinátta, gönguferðir, gleði, samvinna, útilegur, áskoranir og verkefnavinna.

Hér má sjá bækling um ímynd okkar.

Sem sagt: Skemmtilegt og kraftmikið starf.

imynd2En hvað heldur fólk að skátar geri?

Margir hafa á okkur staðlaða ímynd, sem endurspeglast í góða skátanum sem hjálpar gamalli konu yfir götu, marsera til kirkju og syngja „Ging-gang-gooli-gooli“ við varðeld.

Lykilorðin hafa verið: Skrúðganga, syngjandi með gítar, bindandi hnúta, hjálpsamur, saklaus, gamaldags.

Viðfangsefni okkar er að leiðrétta þennan misskilning

imynd3Af hverju er þessi gamaldags ímynd?

Við þurfum að velta fyrir okkur af hverju fólk hefur þessa skoðun á okkur og því sem við gerum. Af hverju heldur fólk að við séum alltaf í skrúðgöngu í skátabúning, bindandi hnúta, spilandi á gítar? Hvernig fær fólk þessa hugmynd/skoðun á okkur?

Almenningur fær sínar upplýsingar úr fjölmiðlum, samfélagsmiðlum, fréttabréfum, auglýsingum og öðru þar sem fjallað er um okkur, eða þá að hann sér til okkar.

Hvernig breytum við þessu?

imynd4Allt sem við sýnum fólki þarf að endurspegla það sem við gerum og viljum að fólk haldi að við gerum.

Lykilorðin eru;  skemmtilegt og kraftmikið.