Vetraráskorun Crean: Í öruggum höndum

Anna Marsibil frá Mbl.is smellti sér á heiðina ásamt Arnari Steinari myndatökumanni.

Anna Marsibil frá Mbl.is smellti sér á heiðina ásamt Arnari Steinari myndatökumanni.

Sjötti dagurinn í Vetraráskorun skáta reyndi verulega á þátttakendur í þessum ævintýralega leiðangri sem hófst síðastliðinn föstudag. Vindhviður á Hellisheiði slóu í ríflega tuttugu metra og það gekk á með éljum. Guðmundur Pálsson slóst í hópinn, rifjaði upp gamla takta á heiðinni og festi nokkur augnablik á filmu fyrir lesendur Skátamála.

Undirbúningurinn skilar sér vel

„Við erum mjög vel mönnuð af þaulreyndu foringjaliði sem sér um kennslu og útfærir verkleg viðfangsefni hér á heiðinni“ segir Inga Ævarsdóttir. „Það er því mjög vel fyrir öllu hugsað, skipulag gott, öryggi þátttakanda í fyrirrúmi og svo erum við auðvitað öll að skemmta okkur stórkostlega vel – það að taka vindinn í fangið og spreyta sig á glímunni við náttúruna er gefandi og gott veganesti fyrir þá unglinga sem eru hérna með okkur“ segir Inga með brosi á vör. „Síðustu mánuðina hafa þátttakendur undirbúið sig markvisst fyrir þennan leiðangur með ýmsum hætti og nú er virkilega gaman að sjá hvernig sá undirbúningur er að skila sér“ bætir Inga við.

Finnbogi og Guðmundur vita hvað þeir syngja.

Finnbogi og Guðmundur vita hvað þeir syngja.

Frá Úlfljótsvatni í gegnum veðurglugga

„Við lágum yfir bestu mögulegum veðurgögnum í fyrradag og sáum að þrátt fyrir hressilega veðurspá var mögulegur veðurgluggi að ganga frá Úlfljótsvatni að skátaskálunum á Hellisheiði í gær“ segir Guðmundur Finnbogason, einn leiðtoga Vetraráskorunarinnar. Við nýttum okkur þessar upplýsingar og héldum af stað og allt gekk eins og í sögu – ferðin tók liðlega átta klukkustundir með tilheyrandi hvíldarpásum og allir komust heilir á húfi á áfangastað eins og lagt hafði verið upp með“. Eftir gönguna löngu komu þátttakendur sér fyrir í þremur skátaskálum undir Skarðsmýrarfjalli: Þrym, Kút og Bæli.

Verkefni af þessum toga eru Slysavarnarfélaginu Landsbjörg nauðsynleg.

Verkefni af þessum toga eru Slysavarnarfélaginu Landsbjörg nauðsynleg.

Dýrmætt samstarf við Slysvarnarfélagið Landsbjörg

„Vetraráskorun Crean er samstarfsverkefni íslenskra og írskra skáta og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar“ bætir Guðmundur við. „Hér eru því á meðal þátttakenda nokkrir félagar úr ungliðadeildunum sem eru að fá frábær tækifæri til að raungera sína þjálfun og spreyta sig á alvöru aðstæðum við erfið skilyrði – þetta unga fólk á eftir að verða björgunarfólk í fararbroddi þegar fram í sækir“ segir Guðmundur.

Hörkugóður dagur í dag

„Það er einmitt við aðstæður eins og þessar hér í dag sem gott er að kunna að grafa sig í fönn eða byggja sér skýli úr snjó“ segir Finnbogi Jónasson, einn leiðtoganna. Þrátt fyrir aftakaveður hafa þátttakendur unnið hörðum höndum að því að byggja sér snjóhús, grafa út snjóskýli og læra þær aðferðir sem nauðsynlegar eru til að skjóta skjólshúsi yfir ferðalanga sem hreppa erfið veður. „Samhliða þessari vinnu í dag hafa þátttakendur fengið þjálfun í notkun á broddum, ísöxum og öðrum slíkum búnaði sem nauðsynlegt er að hafa meðferðis og kunna skil á í vetrarferðum“ bætir Finnbogi við.

Kósí í Bæli eftir langan dag.

Kósí í Bæli eftir langan dag.

Í faðmi fjallanna

„Það verður pottþétt ekki vandamálið að fá kyrrð í kvöld“ segir Silja Þorsteinsdóttir, einn leiðtoganna. Eftir langa göngu í gær og hörkupúl í dag eru flestir orðnir lúnir og hlakka til að skríða í pokann sinn. „Þeir þátttakendur sem náð hafa að gera sér snjóhús eða skýli í dag munu gista þar í nótt en ef það væsir um einhvern höfum við nóg skálapláss þannig að öllum mun líða vel í nótt hér í faðmi fjallanna“. Silja skellir í lokin fram áskorun: „Á næsta ári vil ég þú og Bragi skátahöfðingi gangið með okkur frá Úlfljótsvatni hingað yfir á Hellisheiði!“. (Pistlahöfundur tók áskoruninni fyrir hönd beggja 😉

Langþráð bað á morgun

„Þetta er búin að vera hressileg útivistarlota síðan á föstudag og því verða þátttakendur væntanlega glaðir að komast til byggða á morgun“ segir Elin Esther Magnúsdóttir, dagskrárstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni. „Planið í fyrramálið er einfalt; morgunmatur, frágangur og svo verður gengið niður á þjóðveg þar sem rúta bíður hópsins. Ekið verður sem leið liggur til Reykjavíkur og hópurinn kemur sér fyrir í skátaheimili Landnema í Háuhlíð – sundferð, góður kvöldmatur og kvöldvaka að skátasið er svo á dagskrá en írsku skátarnir halda svo heim á leið á föstudagsmorgunn“.

Elín Esther á von á því að þátttakendur verði hvíldinni fegnir: „Þetta er auðvitað búin að vera stórkostlegur tími en álagið hefur verið mikið og því verða þátttakendur örugglega fegnir að komast í sæmilegt skjól á ný“.

/gp
:: Sjá myndasafn á Facebook

Vetraráskorun skáta hófst á föstudag þegar 20 Írskir skátar komu til landsins ásamt 6 foringjum. Þau hittu um hádegisbil 17 íslenska jafnaldra og saman hélt hópurinn á Úlfljótsvatn. Íslensku þátttakendurnir eru dróttskátar á aldrinum 14 – 16 ára og félagar frá ungliðasveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Að þessu ævintýri á Íslandi kemur fjöldinn allur af skátum og björgunarsveitarfólki.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar