Þátttakendur sváfu í tjöldum í gær. Myndina tók Guðmundur Finnbogason í gær þegar þátttakendur voru búnir að slá upp tjöldum.
Vetraráskorunin Crean hófst á föstudag, en þá komu Írsku skátarnir sem taka þátt í leiðangrinum og hittu íslensku skátana. Saman mun allur hópurinn eiga spennandi daga á Úlfljótsvatni og á Hellisheiði.

Silja Þorsteinsdóttir leiðangursstjóri við brottför á föstudag „Við gistum fjórar nætur á Úlfjótsvatni þar sem þátttakendur munu fá ýmsa fyrirlestra, gista í tjaldi eina nótt, elda á prímus, fara í göngur alla daga ásamt annari dagskrá,“ segir Silja Þorsteinsdóttir, leiðangursstjóri. „Á þriðjudagsmorgni leggjum við af stað gangandi að skálunum Bæli, Kút og Þrym á Hellisheiði. Þessi ganga er um 18km og tekur allan daginn. Við gistum tvær nætur í skálunum áður en við förum með rútu til Reykjavíkur á fimmtudag“.

Þegar hópurinn kemur til Reykjavíkur verður gist í skátaheimili Skjöldunga í Sólheimum og farið í sund, væntanlega langþráð og um kvöldið verður lokahátíð með góðum mat og afhendingu viðurkenninga. Írarnir fara síðan til Keflavíkur um kl. 03:30 um nóttina.

Vetrarferðamennska gerir miklar kröfur

Skátarnir sem taka þátt eru dróttskátar eða í ungliðastarfi Landsbjargar. Í gegnum vetraráskorunina fá þeir mikla og góða þjálfun í vetrarferðamennsku, en gerðar eru miklar kröfur um verkefnaskil, þátttöku og áhuga.

Íslensku og írsku skátahóparnir hafa í vetur æft hvor í sínu landi, fengið fræðslu og sofið utandyra við erfiðar aðstæður. Íslenski hópurinn var í  lok nóvember á helgarnámskeiði í fjallamennsku og um miðjan janúar þegar frostið beit nokkuð grimmt var tækifærið notað og gist í tjöldum.  Skátarnir á Íslandi og Slysavarnafélagið Landsbjörg halda utan um dagskrána hér á landi undir stjórn Silju Þorsteinsdóttur og Guðmundar Finnbogasonar.

Kennt við Tom Crean

Verkefnið er kennt við írska pólfarann Tom Crean, sem meðal annars tók þátt í heimsskautsferðum Scott fyrir um öld síðan. Þetta er í fimmta sinn sem Vetraráskorun er haldin hérlendis.

Nánari upplýsingar og enn fleiri myndir:

Hvað gera Dróttskátar?

Guðmundur Pálsson tók meðfylgjandi myndir við brottför úr Reykjavík á föstudag

IMG_6700 IMG_6699 IMG_6695 IMG_6692 IMG_6687 IMG_6686 IMG_6685 IMG_6672 IMG_6670 IMG_6669 IMG_6667 IMG_6659 IMG_6657 IMG_6650 IMG_6645 crean