Hvað er Jamboree? WSJ N-Ameríka 2019

Hvað er Jamboree?

Orðið „Jamboree“ er sagt vera úr indíánamáli og þýðir „fjöldi stríðsmanna frá mörgum ættbálkum saman kominn til friðsamlegrar keppni“.  Baden – Powell stofnandi skátahreyfingarinnar valdi að nota þetta orð yfir heimsmót skáta, en hugmynd hans með mótinu var að koma á beinum kynnum einstaklinga af ólíkum uppruna.  Þannig mætti stuðla að friði í heiminum.

Heimsmót skáta (e. World Scout Jamboree) er haldið fjórða hvert ár og er ætlað skátum á aldrinum 14 til 17 ára. Þangað koma skátar frá flestum þjóðum heims og er því um einn stærsta viðburð í skátastarfi að ræða.

 

Hvað gerist á  World Scout Jamboree?

24. Heimsmót skáta verður haldið í N-Ameríku 22. júlí til 2. ágúst 2019.  

Heimsmót skáta er einstakt ævintýri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara! 

Með tímanum hefur  World Scout Jamboree breyst í stórviðburð þar sem 30-40 þúsund skátar frá yfir 150 löndum hittast á fjögurra ára fresti. Flestir eignast þar lífstíðarvini frá mismunandi stöðum í heiminum.  Á World Scout Jamboree muntu upplifa að skátaandinn nær yfir fjölmörg lönd þrátt fyrir mismunandi menningarheima, trúarbrögð og jafnvel styrjaldir. Á World Jamboree eru allir vinir.  Að búa með fólki alls staðar að úr heiminum í þéttri tjaldbúð þar sem friður, samvinna og skemmtun ræður ríkjum er einstök upplifun sem þú ættir ekki að missa af og vertu viss að þú munt eiga erfitt með að rifja upp síðar á æfinni allar sólarlandaferðirnar og önnur ferðalög, en þessi ferð mun örugglega standa upp úr – þannig hefur það verið meðal allra sem á Heimsmót skáta hafa farið í áranna rás.

 

Að taka þátt sem almennur þátttakandi

 

Ef þú ert fædd/ur á árunum 2001 til 2005 gefst þér tækifæri til að taka þátt í mótinu sem almennur þátttakandi. Í því fellst að þú færð að taka þátt í allri dagskrá mótsins. Heimsmót skáta eru haldin á fjögurra ára fresti og því færð þú aðeins þetta eina tækifæri til að fara á heimsmót sem almennur þátttakandi.

 

Að taka þátt sem sveitarforingi eða starfsmaður mótsins.

Ef þú ert á aldrinum 18 ára eða eldri átt þú kost á að sækja um sem sveitarforingi eða í starfsmannabúðum mótsins. Fjórir sveitarforingjar fylgja hverri sveit jafnt í undirbúningi mótsins, á leiðinni út og heim, sem og allan tímann á mótinu sjálfu. Á mótinu verða alþjóðlegar vinnubúðir sem er mjög spennandi kostur fyrir skáta á þessum aldri. Skátar í starfsmannabúðum hjálpa til við dagskrá, matarúthlutun, öryggisgæslu, stórviðburði, tjaldbúðarlíf og margt fleira. Ef þú ert eldri en 20 ára getur þú sótt um sem aðstoðarfararstjóri eða starfsmaður fararstjórnar. Í svona langferð með skátahóp eru ýmis verk sem þarf að sinna í undirbúningi og kynningu mótsins. Einnig þarf fólk til að vera á höfuðstöðvum okkar á mótinu og kynna skátastarf á Íslandi sem og að taka á málum sem kunna að koma upp.