Fjallamennska og snjóhúsagerð

Lokaáfangi í Vetraráskorun Crean, sem íslenskir og írskir skátar standa að með Slysavarna­félaginu Landsbjörgu, hefst á föstudag þegar írsku skátarnir koma til landsins. Verkefnið er kennt við írska pólfarann Tom Crean, sem meðal annars tók þátt í heimsskautsferðum Scott fyrir um öld síðan. Þetta er í fjórða sinn sem Vetraráskorun er haldin hérlendis.

SM_MG_3341

Íslenski hópurinn gisti í tjöldum í janúar þegar hitinn fór vel niður fyrir frostmark.

Alls hafa 40 krakkar á aldrinum 14 – 16 ára tekið vetraráskoruninni og munu dvelja vikulangt við þjálfun í fjallamennsku ásamt fararstjórum, leiðsögumönnum og hjálparliði.

Hóparnir hafa í vetur æft hvor í sínu landi, fengið fræðslu og sofið utandyra við erfiðar aðstæður. Íslenski hópurinn var í  lok nóvember á helgarnámskeiði í fjallamennsku og um miðjan janúar þegar frostið beit nokkuð grimmt var tækifærið notað og gist í tjöldum.  Skátarnir á Íslandi og Slysavarnafélagið Landsbjörg halda utan um dagskrána hér á landi undir stjórn Silju Þorsteinsdóttur og Guðmundar Finnbogasonar.

Þrymur á Hellisheiði á góðum degi

Þrymur á Hellisheiði á góðum degi

Gista í tjöldum, snjóhúsum og fjallaskálum

Aðalbúðir leiðangursins verða á Úlfljótsvatni en einnig verður dvalið á Hellisheiði einhverjar nætur. Ýmist verður gist í tjöldum, snjóhúsum og fjallaskálum.  Á dagskrá vikunnar eru meðal annars rötun við erfiðar aðstæður, fyrsta hjálp á fjöllum, snjóhúsagerð, dvöl í hellum, tjaldbúðir á fjöllum og bátsferð. Þátttakendur fá líklega einnig að kynnast sleðahundum ef fulltrúar Sleðahundaklúbbs Íslands ná að koma í heimsókn.

Fá góða undirstöðu fyrir fjallamennskuna

Guðmundur og Silja með frosið bros

Guðmundur og Silja með frosið bros

Auk ferðanna hafa þátttakendur unnið verkefni á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðs­setningar og samfélagsvinnu. Gerðar eru miklar kröfur um verkefnaskil, þátttöku og áhuga.   Markmið Vetraráskorunarinnar eru að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Kennd eru undirstöðuatriði í fjallaferðum og vetrarferðamennsku. Meðal annars er kennd skyndihjálp á fjöllum,  rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, góðir siðir í skálum og ferðareglur í hópferðum og veðurfræði á fjöllum.

Tengd frétt: Sváfu úti til upphitunar

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar