Hljóðlátur árangur vefmála

Fylgjendur skátanna á Facebook eru nú komnir yfir fimm þúsund og hefur þeim fjölgað hátt í 500% frá því í ársbyrjun síðasta árs þegar þeir voru rétt rúmlega þúsund. „Árangurinn viljum við fyrst og fremst þakka lifandi efni sem höfðar til skáta,“ segja Guðmundur Pálsson og Jón Halldór Jónasson, en þeir eru í ritstjórn vefs skáta og samfélagsmiðla.

Vefritstjórnin, eða stýrihópur vefmála eins og hópurinn heitir formlega, fékk það hlutverk frá stjórn BÍS að endurgera vefsíður og hlúa að samfélagsmiðlum skáta. Verkefnið hófst um mitt ár 2013 og á tiltölulega stuttum tíma voru opnaðir nýir vefir, en fyrsti vefurinn var opnaður í ágúst 2013 en það var www.skatarnir.is og rétt fyrir jól sama ár opnaði vefurinn www.skatamal.is sem leysti eldri vef af hólmi.

Það er hins vegar ekki nóg að opna vef og þeir félagar vissu að þá myndi vinnan hefjast fyrir alvöru við að halda vefnum lifandi og í góðum tengslum við skátastarfið. Stefnan var tekin á öflugan fréttaflutning og er óhætt er að segja að skátar og velunnarar hafi tekið því fagnandi. Fréttir eru settar á Skátamál og síðan miðlað út á Facebook-síðu með ríkulegu myndefni sem nóg er af frá skátastarfinu. Þessu má um margt líkja við fjallgöngu, segja þeir félagar. Það er á brattann að sækja en eftir því sem hærra kemur batnar útsýnið. Margt hefur lærst á þessari göngu. Fjölgun fylgjenda hefur verið nokkuð þétt og jöfn frá því verkefnið var tekið faglegum tökum.

Yfirlit yfir fjölgun þeirra sem fylgja okkur á Facebook. Skemmtilegt þversnið af fjalli.

Yfirlit yfir fjölgun þeirra sem fylgja okkur á Facebook. Skemmtilegt þversnið af fjalli.

Ef þú ert ekki þegar vinur skátanna á Facebook þá er auðvelt að bæta þar úr >  www.facebook.com/skatarnir 

Markmið vefritstjórnarinnar fyrir árið 2014 voru annars vegar að ná til helmingi fleiri lesenda en fyrra ár og hins vegar að efla gæði, en þar er markið sett á að minnst 3 af hverjum 4 skátum telji vefinn vera gagnlegan, aðgengilegan og áhugaverðan. Talningarnar sýna að fyrra markmiðið hefur náðst og vel það. Á næstu vikum ætla þeir félagar að efna til kannana meðal skáta til að fá dóm þeirra og viðbrögð. Einnig verður skátum boðið í minni rýnihópa til að fá gagnrýni og hugmyndir um hvað betur má gera. Guðmundur segir að gaman væri að kynna niðurstöður könnunar og samantekt rýnihópa á Skátaþingi.

Verkefni ritstjórnar vefsins (stýrihóps vefmála) á sér að sjálfsögðu síðu hér á vefnum > www.skatamal.is/upplysingaheimar

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar