„Gestrisni er, hefur verið og á að vera aðalsmerki staðarins,“ segir Grímur Valdimarsson sem nýverið tók við stöðu formanns Úlfljótsvatnsráðs.  Hann leggur áherslu á að áfram verði tekið vel á móti gestum og er ánægður með þá þróun að opna Útilífsmiðstöðina á Úlfljótsvatni enn meira fyrir almenningi. „Hliðið á að vera opið. Úlfljótsvatn er staður þar sem allir eru velkomnir,“ segir hann.
Margt sem hægt er að upplifa á Úlfljótsvatni
Margt sem hægt er að upplifa á Úlfljótsvatni

Grímur þekkir vel til starfseminnar á Úlfljótsvatni og sat á árum áður í Úlfljótsvatnsráði og var formaður 1995-1997. Hann tók einnig þátt í að endurvekja sumarbúðirnar á Úlfljótsvatni árið 1970 ásamt Ólafi Ásgeirssyni, en þær höfðu lagst af um tíma. Ólafur, sem síðar varð skátahöfðingi, stýrði  sumarbúðunum árið 1970 en Grímur árið 1971. Hann segir að þetta starf hafi verið erfitt en gefandi.  Aðstaðan hafi engan veginn verið í takti við nútímakröfur einkum hreinlætisaðstaðan  og kostur í mat og drykk sem boðið var upp á þætti líklega vart bjóðandi í dag.  En starfið var spennandi og margir þátttakenda minnast þessara ævintýrabúða sem boðið var uppá. Reynt var að byggja námskeiðin upp í kringum ákveðin þemu og voru sum býsna metnaðarfull. Á einu námskeiðinu voru t.d. reist indíánatjöld í fullri stærð og skreytt að hætti mismunandi ættbálka.  Gátu 30 krakkar setið inni í stærsta tjaldinu og skemmt sér á kvöldvöku með eldi í miðjunni þótt misjafnlega hafi gengið að láta reykinn fara rétta leið út um toppinn.

Margir draumar um uppbyggingu hafa ræst, segir Grímur
Margir draumar um uppbyggingu hafa ræst, segir Grímur

Margir draumar hafa ræst

Grímur segir að margt hafi breyst til batnaðar frá fyrri tíð. „Ég er mjög ánægður með að sjá að margir  gamlir draumar um uppbygginguna á Úlfljótsvatni hafa orðið að veruleika. Það er kominn skógur á Úlfljótsvatni,“ segir hann og rifjar upp hvernig ræktunarstörfin voru á sínum tíma. „Við fengum t.d. sumarblóm  og strákarnir gróðursettu heilan  vörubílsfarm af þeim. Það voru ekki liðnir nema 3 dagar þegar kindur Birgis bónda höfðu troðið sér í gegnum girðinguna og voru búnar að gæða sér á blómunum.  Þá varð okkur ljóst að plöntun trjáplantna yrði að bíða betri tíma.“

Allir eru velkomnir á Úlfljótsvatn
Allir eru velkomnir á Úlfljótsvatn

Önnur framtíðarsýn Gríms og félaga hefur einnig ræst, en þeir vildu gefa fleirum en skátum kost á að nýta sér Úlfljótsvatn.  „Nú er komin útilifsmiðstöð eins og við vildum og hún er ekki bara fyrir skáta.  Við vildum  að sjálfsögðu byggja upp fullkomna aðstöðu fyrir skátana en einnig  útilífsmiðstöð þar sem allir væru velkomnir. Skátar gætu boðið uppá ýmiss konar þjónustu á svæðinu sem nýttist öllum,“ segir hann.

„Það var einnig mikilvægt skref að festa kaup á jörðinni,“ segir Grímur en sl. vetur skýrðust endanlega mál í kringum eignarhald jarðarinnar. „Það er einnig hrein bylting að fá heitt vatn. Þótt við nýtum það nú til upphitunar þá  eigum við marga  möguleika sem heita vatnið býður upp á.“

Húsakosturinn kallar á viðhald
Húsakosturinn kallar á viðhald

Brýnt að endurnýja húskost

„Úlfljótsvatn er alger perla í nágrenni Reykjavíkur og hefur sterkt aðdráttarafl, ekki bara fyrir skátastarf, heldur margvíslega útiveru, námskeið  og gistingu. Að starfslið sé á staðnum allt árið um kring opnar  ýmsa möguleika sem ekki voru til staðar“ segir Grímur aðspurður um framtíðarmöguleika staðarins.  Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur standa sameiginlega að Úlfljótsvatni og er Úlfljótsvatnsráð skipað fulltrúum beggja aðila. Á vegum samtakanna hafa nýlega verið haldnir fundir til þess að velta upp hugmyndum um það hvernig aðstaðan á Úlfjótsvatni geti nýst skátahreyfingunni og almenningi sem best og er verið að vinna úr þeim hugmyndum. Sem dæmi nefnir Grímur miðstöð fyrir jaðarsport eins og þrautabrautir fyrir fjallahjól og  aðstöðu fyrir ,,frumbyggjaútilegur“ og fleira nýstárlegt sem gaman væri að bjóða uppá.

„Fyrst og fremst þurfum við að byggja upp aðstöðuna.  Brýnast sýnist mér vera að endurnýja húsakost, klára verkefni tengd rafmagni og salernisaðstöðu,“ segir Grímur um áherslur Úlfljótsvatnsráðs.  „Okkur vantar peninga – augljóslega, ef við eigum að byggja upp aðstöðu sem uppfyllir kröfur tímans.  Til þess þurfum við stuðning,“ segir hann.  „Það þarf að fara í meiriháttar endurbyggingu á svæðinu því margir skálanna á svæðinu eru komnir í þannig ástand að endurnýjun er nánast eini kosturinn.  Við megum ekki gleyma því að gestir staðarins gerast æ kröfuharðari um góða aðstöðu.“

Krakkarnir fá að spreyta sig
Krakkarnir fá að spreyta sig

Leyfum börnunum að spreyta sig

„Markmiðið með skátastarfinu er að ungt fólk fái að þroska og rækta hæfileika sína í félagi við aðra. Styrkur skátastarfsins er að krakkarnir verða að treysta á sig sjálf, setja sér markmið, leysa verkefni, velja sér verkstjóra. Að mínum dómi getur skátastarfið  gengt stærra hlutverki í dag en það gerði. Börn verða að fá að spreyta sig í raunheimum, en ekki bara á netinu og í tölvuleikjum,“ segir Grímur og rifjar upp máli sínu til stuðnings niðurstöður rannsóknar sem sýndi að þau börn sem ekki fái að spreyta sig og taka hóflega áhættu sem útileikir fela í sé  hættara en öðrum að lenda í alvarlegum áföllum síðar. Þær smá skeinur og plástrar sem óhjákvæmilega fylgja útileikjum eiga því ekki að vaxa uppalendum í augum.  „Að sjálfsögðu þarf að viðhafa eðlilega aðgætni. Við leyfum börnum að klifra í klifurturninum á Úlfljótsvatni undir eftirliti. Það hvílir auðvitað mikil ábyrgð á þeim sem stýra tjaldbúðum og útileikjum barna að tryggja öryggið sem best, en við megum ekki detta í þá gryfju að banna börnunum  að spreyta sig og prófa,“ segir Grímur, sem sjálfur á þrjú börn með konu sinni Kristínu Jónsdóttur og átta barnabörn.

Frjáls útileikur á Úlfljótsvatni
Frjáls útileikur á Úlfljótsvatni

Grími er hugleikið að bjóða upp á það sem kallast frjáls útileikur og gjarnan megi tengja það vísindalegum athugunum. „Mér finnst áhugavert að koma börnum í kynni við heimsspeki og  vísindi og hjálpa þeim þannig að skoða náttúruna og samfélagið með kerfisbundnum hætti,“ segir hann.  „Hjálpa þeim að greina hismið frá kjarnanum.“ Þannig læri krakkarnir að skoða hlutina með gagnrýnum hætti sem er afar mikilvægt í þeirri flóðbylgju  upplýsinga og staðhæfinga sem við þurfum að vinna úr á hverjum degi.  „Hvernig getum við þjálfað krakka í gagnrýnni hugsun og í því að spyrja réttra spurninga?“.

Skátarnir búa einnig að góðri umgjörð fyrir félagslegt uppeldi og  það að  reyna sig í hópi, vinna hugmyndum fylgi.  „Það er í dag kallað jafningjafræðsla.  Þetta hafa skátarnir lengi gert,“ bendir Grímur á og vill meina að skátarnir hafi oft verið á undan sinni samtíð og dregur lærdóm af sínu skátastarfi. „Þegar ég var í skátaflokki sem unglingur þótti það stórskrýtið að fara í gönguferð með herðaslá sem við kölluðum ponsjo í útilegu og að grilla á kolum. Alvöru útivistarbúnaður var aðeins seldur í Skátabúðinni og taldist til sérþarfa.  Það var sérstök frétt ef einhver labbaði upp á Esju, en í dag eru raðir af fólki á öllum aldri gangandi á Esjuna og bílastæðin við fjallsræturnar pakkfull.“

Bakteríur tengdar sjávarlífverum

Grímur Valdimarsson er Reykvíkingur með rætur í sveitinni, fæddur 1949  og stúdent frá MR. Hann er líffræðingur frá Háskóla Íslands, en tók svo doktorspróf í örverufræði frá Stathclyde háskólanum í Glasgow í Skotlandi. „Þar sem ég lærði á bakteríur tengdar sjávarfiskum,“ eins og hann orðar það.  Hann vann síðan hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins í 20 ár, meðal annars sem forstjóri.  Árið 1997  tók hann sig upp og flutti til Rómar og tók við stöðu forstjóra fiskiðnaðarsviðs FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna).  Þar lauk hann störfum og  flutti heim til Íslands eftir 13 ára dvöl og vinnur nú sem ráðgjafi  á skrifstofu sjávarútvegsmála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Námskeið skáta á við bestu stjórnunarnámskeið

Grímur byrjaði í skátafélaginu Skjöldungum sem ylfingur, eins og yngsta skátastigið hét þá. Eftirminnilegast úr skátastarfi er upplifun af góðum félagsskap,  af tjaldbúðarlífinu  eins og t.d. Minkamóti 1964 í Borgarvík. „Það var ógleymanlegt mót enda veðrið með besta móti – reyndar svo gott að sumir brenndust illa.  Þetta var skátastarf eins og það gerist best – og var mjög gaman,“ segir hann.

„Ég fór á Gilwell 1967 hjá Björgvini Magnússyni sem var mikil upplifun. Meðal leiðbeinenda voru Ágúst Sigurðsson, Helgi S. Jónsson, Eiríkur Jóhannesson og Óskar Pétursson. Ég hef sótt mörg stjórnunarnámskeið í gegnum tíðina og hef þá séð æ betur hve þessi námskeið skátanna voru í raun innihaldsrík, “ segir Grímur.

Myndin er tekin einhvern tíma um 1970 segir Grímur.  Nú er spurningin: Hverjir eru á myndinni?
Myndin er tekin einhvern tíma um 1970 segir Grímur. Nú er spurningin: Hverjir eru á myndinni?

Jónas B. Jónsson fékk Grím til liðs við Úlfljótsvatnsráð upp úr 1990.  „Mjög skemmtilegur tími enda Jónas einstakur maður. Þá voru með okkur í ráðinu Finnbogi Finnbogason, Halldóra Gísladóttir, Sigrún Sigurgestsdóttir og  Sigurður Guðmundsson. Jónas hætti 1995 sem formaður og ég tók við keflinu,“ segir Grímur sem nú hefur tekið við formennsku að nýju.