Hjólið gaf sig en skátinn ekki

Hjólreiðahópurinn sem er á leiðinni norður á Landsmót skáta á Akureyri lagði á Arnarvatnsheiðina um hádegi í dag. Í hópnum eru 6 skátar á aldrinum 16 – 18 ára úr skátafélögunum Árbúum og Garðbúum og auk tveggja fylgdarmanna á hjólum.
Betur fór en á horfðist þegar hjólið gaf sig.

Betur fór en á horfðist þegar hjólið gaf sig.

Það kom í ljós í dag að hópurinn er vel undirbúinn en þau hafa farið nokkrar æfingaferðir á malarslóðum.  Ferðin gekk vel að frátöldu einu óhappi þegar demparar eins hjólsins gáfu sig og skátinn hafnaði utan vegar á mjúkan mosann. Lagst var í að útvega nýtt hjól svo hann gæti haldið ferðinni áfram með hópnum. Ekkert gefið eftir og greinilega mottóið ,,Einn fyrir alla og allir fyrir einn“ í góðu gildi.

– Færið er gott, stöku holur og pollar.  Smá vindur í bakið og stöku skúrir, en ekkert til að gera veður út af,  segir Auðna Ágústsdóttir sem fylgdi hópnum áleiðis í dag.  Hópurinn óð yfir Norðlingafljót og í nótt gistir hann í skála við Arnarvatn.  Í dag voru lagðir að baki tæpir 50 km með um 300 metra hækkun, en á morgun er leiðin rúmir 50 km með 530 metra lækkun þegar hjólað verður niður að Laugarbakka í Miðfirði.  ,,Brekkurnar niður í móti og heitur pottur á Laugarbakka verður þeim hvatning eins og fjársjóður við endann á regnboganum“, segir Auðna foreldri og trússmeistari.

Um helgina taka sexmenningarnir þátt í sérstakri Landsmóts-upphitunardagskrá fyrir Rekka- og Róverskáta, en það eru skátar á aldrinum 16 – 22 ára. Á sunnudagskvöld verða þau í hópi 2.000 skáta við setningu á Landsmóti skáta að Hömrum við Akureyri.

Nánar um Landsmót skáta

Lagt af stað yfir Norðlingafljót

Lagt af stað yfir Norðlingafljót

 

Hópurinn fyrir brottför: frá vinstri Katrín, Hafdís, Axel, Guðjón Orri, Kjartan Bragi (liggjandi), Davíð Örn, Ulrik og Sesselja

Hópurinn fyrir brottför: frá vinstri Katrín, Hafdís, Axel, Guðjón Orri, Kjartan Bragi (liggjandi), Davíð Örn, Ulrik og Sesselja

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar