Heitasta blandan – vítamínsprauta í upphafi vetrarstarfs

Um næstu helgi verður boðið upp á fjölbreyttan námskeiðspakka að Laugum í Sælingsdal fyrir skáta 18 ára og eldri, eða frá róverskátaaldri og uppúr. Viðburðurinn hefur verið árviss undanfarin ár og er tekið inn það sem er heitast í umræðunni hverju sinni.
SM_1561

Bland er samhjálparnámskeið …

Hugmyndin með námskeiðhelginni sem heitir „Bland í poka“ er að bjóða starfandi sveitarforingjum, stjórnum og öðrum skátum og foreldrum sem eru í baklandi skátafélaganna upp á vítamínsprautu í upphafi vetrarstarfsins. Þeir sem eru í fagráðum og stjórn Bandalags íslenskra skáta taka einnig þátt.

Það stefnir í góða þátttöku og segir Dagbjört Brynjarsdóttir sem heldur utan um þræði í undirbúningi að nú þegar hafi 50 skráð sig, en hún vonast til að um 60 skátar muni mæta.
Hún hvetur þá sem eru að spá í að mæta að láta vita svo hægt sé að hafa allt þetta praktíska á hreinu.

Fyrirlestrar, flot og samstarfsverkefni

Dagbjört segir að nokkur spenna sé fyrir fyrirlestri Chip-Veerle Haverhals, frá Evrópuskrifstofu WOSM, en hún mun segja frá Evrópustarfi heimshreyfingarinnar (World Organization of the Scout Movement – WOSM Europe).

Það kennir margra annara grasa í dagskránni. Kastljósi verður beint að starfsgrunni rekka og róverskáta, lýðræðisleikir verða kenndir og farið verður yfir hvernig við miðlum nýju skátaheiti til skátanna. Einnig verður fyrirlestur um „erfiða skátann“ en þar er fjallað um frávik í hegðun barna og hvernig við tökumst á við þau. Inn í dagskránni er einnig útivist og útivistartengd atriði, en boðið er upp á gönguferðir, kennslu í útieldun og klifur og sig fyrir lengra komna.

Sundlaugin á Laugum fær einnig að njóta sín og skátar geta sótt hana. Einnig verður boðið upp á samflot, þar sem skátarnir munu fljóta inn í nóttina með flothettu og hugljúfa tónlist úr Ghettóblasterum sínum.

Dagskráin í heild er aðgengileg frá upplýsingasíðu viðburðarins inn á Skátadagatalinu

Í algleymi

Í algleymi

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar